Skólasetning – punktar úr ræðu skólastjóra

Ritstjórn Fréttir

Grunnskólinn í Borgarnesi var settur í Borgarneskirkju 22. ágúst. Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri bauð gesti velkomna og flutti stutt ávarp. Í máli hennar kom fram að á þessu skólaári eru 278 nemendur skráðir í skólann og starfsmenn eru 56 í rúmlega 42 stöðugildum. 35 nýir nemendur hefja nú nám við skólann og af þeim eru 22 í fyrsta bekk.
Í máli Júlíu kom fram að skólinn starfar í anda uppbyggingarstefnunnar. Í hugmyndafræði stefnunnar felst að mistök eru leyfð en við þurfum að læra af þeim. Stefnan miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn nemenda, að þjálfa þá í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skólans við að móta sér skýra stefnu í agamálum og samskiptum.
Þá lét Júlía þess getið að skólinn flaggar nú Grænfánanum að nýju og verður þátttöku í grænfánaverkefninu haldið áfram af miklum krafti. Grænfánaverkefnið stuðlar að aukinni umhverfisvitund, jákvæðum áhrifum í umhverfismálum á nærsamfélagið, lífsvenjum í anda sjálfbærni, lýðræðislegum vinnubrögðum og styrkir umhverfisstefnu skólans.
Grunnskólinn í Borgarnesi er einnig heilsueflandi grunnskóli og mun taka þátt í ýmsum viðburðum tengdum heilsueflingu. Mikilvægur hluti af heilsueflandi grunnskóla lýtur að líðan nemenda og greindi Júlía frá tilraunaverkefni sem unnið verður á skólaárinu. Elín Kristinsdóttir mun leiða verkefnið en þar verður markvisst unnið að aukinni velferð og vellíðan nemenda og starfsfólks. Elín vinnur nú að meistaraverkefni sem fjallar um það hvernig stuðla megi að sjálfstyrkingu, aukinni þrautseigju og bættu hugarfari nemenda. Verkefnið tengist áherslum skólans og uppbyggingarstefnunni og verður framkvæmd þess kynnt fyrir foreldrum og forráðamönnum innan tíðar.
Áfram verður svo unnið að þróun teymiskennslu í samvinnu við Grunnskóla Borgarfjarðar en sveitarfélagið fékk styrk til þess verkefnis sem Ingvar Sigurgeirsson stýrir ásamt Önnu Magneu Hreinsdóttur fræðslustjóra. Þá verður áfram unnið að innleiðingu nýs námsmats og verður sú vinna kynnt foreldrum og forráðamönnum eftir því sem við á.
Júlía ræddi um framkvæmdir við skólann og vísaði til skýrslu verkfræðistofunnar Eflu sem unnin var í sumar. Raki og sveppir fundust í húsnæði skólans og eru framkvæmdir hafnar til að vinna bug á vandamálum sem slíku fylgja. Eðlilega fylgir slíkum framkvæmdum nokkuð ónæði en það á þó ekki að koma niður á skólastarfinu.
Skólastjóri hvatti loks viðstadda til þess að hefja vetrarferðina með gleði og að sýna hver öðrum kurteisi og virðingu fyrir mismunandi skoðunum og áhugamálum.
Kristín Einarsdóttir aðstoðarskólastjóri kynnti kennara og stuðningsfulltrúa og að því búnu héldu nemendur upp í skóla ásamt umsjónarkennurum sínum og fengu afhentar stundatöflur.