Iðn

Verknám á vinnustað – IÐN – er hluti af vali í unglingadeild Grunnskólans í Borgarnesi. Nemendur velja hvaða iðngrein þeir vilja kynna sér og fara í verknám í viðeigandi fyrirtæki eða vinnustað. Vali vetrarins er skipt í 5 lotur og geta nemendur því farið í 5 fyrirtæki í valinu. Hver lota stendur yfir í sex til sjö vikur og mæta nemendur á sinn vinnu-/námsstað vikulega í tvær klukkustundir í senn. Til þess að nemendur fái sem besta innsýn í iðngreinina og starfið sem fram fer á vinnustaðnum er mætingin ekki alltaf bundin við kennslutíma valsins á stundaskrá skólans.

Markmið IÐN, verknáms á vinnustað, er að efla samstarf skóla og atvinnulífs í samfélaginu og að skapa vettvang þar sem nemendur geta þjálfað verkkunnáttu sína og kynnst mismunandi iðngreinum. Annað markmið er að þróa matsferli til að meta verklega hæfni á vinnustað, svo sem mat atvinnurekenda og sjálfsmat nemenda út frá matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Þá er einnig horft til þess að nemendur fái tækifæri til þess að gefa til samfélagsins með vinnuframlagi sínu og að þeir sem eru sterkari í verklegum greinum en bóklegum fái tækifæri til að byggja á styrkleikum sínum.

Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði árið 2015 og hefur verið í stöðugri þróun og endurskoðun síðan.

Fyrsti hópurinn sem tók þátt í verknámsvalinu haustið 2015 gerði myndband um námið undir handleiðslu verkefnisstjóra. Myndbandið má sjá með því að smella hér.