Læsi

Í nýrri námsskrá er læsi skilgreint í víðum skilningi. Læsi snýst um samkomulag manna um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Undirstaða læsis er tæknin að lesa tákn, orð og myndir, en til að geta lesið og túlkað texa þarf lesandinn að tengja hann við eigin þekkingu. Læsi verður þannig þekkingarsköpun nemandans. Ritun og tjáning gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þekkingarsköpun og er þjálfað samhliða læsi. Undir hugtakið læsi falla líka hugtök eins og fjölmiðlalæsi og táknvísi.

Miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Hver miðill hefur sitt táknkerfi sem mikilvægt er að nemendur þekki og skilji. Nemendur læra að meta og gagnrýna það efni sem lesið er, með ritunaræfingum, tjáningu og samræðum.

„Nýtt læsi er sem sagt ekki bundið við málvísi í hefðbundnum skilningi heldur við táknvísi í víðum skilningi.“ (Stefán Jökulsson, 2012)

Skólinn leggur áherslu á byrjendalæsi í yngri árgöngum. Markviss þjálfun í lestri á sér stað í 1.- 6. bekk og hvatt er til yndislesturs í 7.-10. bekk. Bókasafn skólans gegnir lykilhlutverki með því að hafa á boðstólnum fjölbreytt efni á íslensku og erlendum tungumálum.

Nemendur í 7. bekk taka þátt í „Stóru upplestrarkeppninni“, og nemendur í 6. bekk hafa reglulegar æfingar fyrir þá keppni og lesa upp fyrir foreldra og gesti. Nemendur 4. bekkjar taka þátt í dagskrá á „Degi íslenskrar tungu“, 5. bekkur heldur ljóðasýningar í samstarfi við Safnahús Borgarfjarðar og allir nemendur skólans taka þátt í jólaútvarpi Óðals og í árshátíð skólans. Annað slagið er lestur gerður „sýnilegur“ með nýrri nálgun, til dæmis með heimsóknum rithöfunda og lestrarátaki í ákveðinn tíma.

Bókasafns skólans er opið nemendum alla daga frá klukkan 8.20 – 14.00. Stefna skólans er að bjóða upp á góðan og fjölbreyttan safnkost og að endurnýja safngögn reglulega.

Uppfært 08/2016