Sérkennsla

Skóli margbreytileikans

Ef nemandi víkur það mikið frá í námslegri getu að hann getur ekki fylgt námsefni síns árgangs, þá er komið til móts við hann með öðru námsefni, en jafnframt í samráði við foreldra, gerð einstaklingsnámskrá í því/þeim fagi/fögum sem erfið reynast. Einstaklingsnámskrá vinna umsjónarkennari/sérgreinakennari í samráði við deildarstjóra, eftir því sem við á.  Fyrirliggjandi greining og/eða mat eru notuð til grundvallar og ráðleggingar frá matsaðilum. 

Eigi nemandi erfitt með að mæta í skólann í samræmi við hefðbundna stundaskrá er gengið frá samningi við nemanda og foreldra um hvernig bregðast skuli við.  Grunnlínan er alltaf að nemandi mæti í skólann, í samræmi við getu, til að hann geti haldið sem bestum félagslegum tengslum og tekið virkan þátt.  Aðlöguð stundaskrá getur átt við um hluta dagsins, einstaka námsgrein eða annað, eftir því sem við á. 

Eins og kveðið er á um í lögum um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla, skal koma til móts við nemendur í námi þar sem þeir eru staddir. Að allir nemendur stundi nám við hæfi í sínum heimaskóla er okkar viðmið. Til að koma til móts námslegar þarfir, efla áhuga og auka vellíðan nemenda í skólastarfinu hefur skólinn ýmiss úrræði. Þar má nefna:

  • Námsver
  • Sérkennslu og/eða stuðning inni í bekk
  • Aðlagað námsefni
  • Íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna
  • Þjálfun og kennslu hjá þroskaþjálfa
  • Viðtöl og leiðsögn hjá námsráðgjafa
  • Viðtöl og leiðsögn hjá skólahjúkrunarfræðingi
  • Spjalltíma hjá stuðningsfulltrúa
  • Félagsfærniþjálfun
  • Búbblutíma hjá velferðarkennara skólans
  • Starfsnám á vinnustað

Sérkennsla er veitt á yngsta-, mið- og unglingastigi í samræmi við lög um grunnskóla 91/2008 og reglugerð um sérkennslu 585/2010. Sérkennsla er nokkuð breytileg eftir stigum. Áherslan er á að byggja sérkennsluna upp eins og pýramída, þannig að stuðningur sé sem mestur fyrstu árin, en minnki smám saman og sé í raun lítill á unglingastigi. Áherslan er á að nemendur séu ekki einir í sérkennslu, nema í undantekningartilfellum og það er enginn nemandi neyddur til þess að mæta í sérkennslu eða í námsver. Viðfangsefnin í sérkennslunni eru fjölbreytt og löguð að hverjum nemanda. Á yngsta stigi eru þroskaþjálfar í teymi bekkja og einnig sérkennarar ef við á. Á mið- og unglingastigi er þetta breytilegt eftir árgöngum. Grunnlínan er að allir nemendur geti fylgt sínum árgangi að sem mestu leyti og sérkennsla og þjálfun eykur líkurnar á því. Mikil áhersla er á lestrarkennslu og -þjálfun. Að þeirri þálfun koma einnig stuðningsfulltrúar. Mikil áhersla er á gott samstarf heimilis og skóla, sem er einmitt grunnur að farsælum námsferli. Við ákvörðun á fjölda sérkennslutíma og stuðnings almennt til árganga og stiga er til viðmiðunar samantekt að vori, þar sem fram koma tillögur umsjónarkennara, þroskaþjálfa og sérkennara varðandi stuðning og sérkennslu. Einnig liggja til grundvallar fyrirliggjandi greiningar, SIS mat og nemendafjöldi í árgangi.

Að greina vanda

Ef vísbendingar eru um að nemendur eigi við vanda að stríða sem háir þeim í námi eða félagstenglsum, er málið kannað og reynt að finna rót vandans. Skimanir hjá sálfræðingum, málþroskapróf hjá talmeinafræðingum, lestrargreiningar, atferlisgreining, viðtöl hjá námsráðgjafa og velferðarkennara eru meðal þess sem notað er. Til að skimun eða formleg athugun sé gerð þurfa foreldrar að fylla út tilvísunarblað og málið að vera tekið fyrir hjá nemendaverndarráði, en umsóknareyðublað dugar til að panta viðtöl hjá velferðarkennara og námsráðgjafa. Hjá þeim síðastnefnda geta nemendur einnig mætt án þess að nokkuð liggi að baki annað en áhugi þeirra sjálfra á að ræða málin.
Þau gögn sem sérfræðingar skila að loknum formlegum athugunum eru vel nýtt af kennurum og þroskaþjálfum til að koma til móts við þarfir nemenda og sinna þjálfun.
Sérfræðingar skila af sér gögnum á svokölluðum skilafundum. Á slíka fundi eru boðaðir foreldrar, umsjónarkennarar, aðilar stoðþjónustu, félagsþjónustu og Frístundar, eftir því sem við á. Farið er yfir niðurstöður greininga og þau úrræði sem lögð eru til. Túlkar eru kallaðir til á þessa fundi (símatúlkun) eftir því sem við á.

Umsókn um aðlagað námsefni, aðlagaða stundaskrá eða önnur frávik

Ef nemandi víkur það mikið frá í námslegri getu að hann getur ekki fylgt námsefni síns árgangs, þá er komið til móts við hann með öðru námsefni, en jafnframt í samráði við foreldra, gerð einstaklingsnámskrá í því/þeim fagi/fögum sem erfið reynast. Einstaklingsnámskrá vinna umsjónarkennari/sérgreinakennari í samráði við deildarstjóra, eftir því sem við á. Fyrirliggjandi greining og/eða mat eru notuð til grundvallar og ráðleggingar frá matsaðilum. Eigi nemandi erfitt með að mæta í skólann í samræmi við hefðbundna stundaskrá er gengið frá samningi við nemanda og foreldra um hvernig bregðast skuli við. Grunnlínan er alltaf að nemandi mæti í skólann, í samræmi við getu, til að hann geti haldið sem bestum félagslegum tengslum og tekið virkan þátt. Aðlöguð stundaskrá getur átt við um hluta dagsins, einstaka námsgrein eða annað, eftir því sem við á.

Uppfært 09/2020