Stuðningur

Stuðningur og leiðsögn við lestur

Í lestrarþjálfun er aðkoma heimilis afar mikilvæg til að árangur náist og er daglegur heimalestur þar í aðalhlutverki. Lestrarstuðningur felst í því að hvetja börnin og hrósa þeim, leiðrétta villur og skapa áhuga og skilning með því að ræða efnið.

Skráning á heimalestri
Markviss skráning á lestri nemenda veitir yfirsýn yfir ástundun þeirra í lestri. Það veitir einnig innsýn í skipulag, virkni og viðhorf nemandans til lestrar. Allan heimalestur á að skrá og er það þáttur í samstarfi á milli heimilis og skóla.

Markmið með heimalestri er að nemendur auki við leshraða og bæti lesskilning, orðaforða og málskilning. Mikilvægt er að huga að því að þegar barnið les heima að það hafi næði á meðan það æfir sig.

Að styðja við heimalestur
Ef barnið eru hæglæst eða ónákvæmt í lestri er nauðsynlegt er að sitja hjá því og fylgjast með lestrinum.
• Leiðrétta þarf rangt lesin orð. Best að leiðrétta með því að nefna orðið rétt, án athugasemda og án þess að stoppa lesturinn.
• Ef barn les rangt hljóð fyrir staf getur verið gott að nefna hljóð stafsins og fá barnið til að lesa orðið aftur (hóla/hála).
• Ef barnið hefur tilhneigingu til að sleppa eða mislesa endingar orða er gott að hvetja það til að veita endingunum sérstaka athygli.
• Þegar barnið á erfitt með að lesa samhljóðasambönd (hv, sj, skr…) er gott að styðja við lesturinn með því að hjálpa barninu að kveða að hljóðunum.
• Gott er að hvetja barnið til að nefna sem heild algeng orð (er, og, sagði…) í stað þess að hljóða sig í gegnum þau.
• Mikilvægt er að hrósa þegar rétt er lesið.
• Það er góð regla að athuga öðru hvoru hvort barnið skilur það sem lesið var með því að ræða söguþráðinn eða spyrja spurninga.

Fyrir unglinga og þá sem eru komnir vel á stað í lestrinum er mikilvægt að huga að því að lesið sé í langan samfelldan tíma í einu, nokkrum sinnum í viku, helst í 15-20 mínútur fimm sinnum í viku.
• Ef unglingurinn hefur ekki tileinkað sér leshraða skv.viðmiðum bekkjar er gott að láta lesa hluta efnis daglega upphátt, t.d. eina síðu.
• Mikilvægt er að ræða efnið við unglinginn og athuga þannig skilning og skapa umræður um efnið.
• Unglingar sem lesa mjög hægt geta haft gott af því að lesa texta um leið og þeir hlusta á hann lesinn á hljóðbók.

Lestrarerfiðleikar
Einstaka nemendur eiga í tímabundnum erfiðleikum með að tileinka sér lestrarnámið en aðrir til langframa. Þó ekki sé til lækning við lestrarörðugleikum er gott að hafa í huga að allir geta bætt lestrarfærni sína upp að einhverju marki. Slíkt gerist aðeins með mjög markvissri þjálfun og stuðningi, bæði heima og í skóla. Þar sem stundum getur verið erfitt að fá nemendur með lestrarörðugleika í samstarf um þjálfun er mikilvægt að nýta ímyndunaraflið og skapa fjölbreytni í þjálfuninni

Bæði nemendum með og án lestrarerfiðleika hentar vel að nýta sér eftirtaldar aðferðir til að fá fjölbreytni í lestrarnámið.

Leiðir til að efla heimalesturinn:
Eftirherma
Foreldri/forráðamaður les afmarkaðan texta fyrir nemandann. Nemandinn æfir sig að lesa textann í hljóði eða lágt og reynir að líkja eftir lestrarlagi foreldris. Að lokum les nemandinn textann upphátt. Foreldri leiðbeinir og leiðréttir ásamt því að hvetja nemandann áfram.

Lestrarkapp
Nemandinn les eina blaðsíðu þrisvar sinnum og foreldri/forráðamaður tekur tímann. Nemandinn reynir að bæta sig í hvert sinn sem hann les. Endurtekning er mjög mikilvægur þáttur í lestrarþjálfun og þar sem nemendum finnst endurtekning oft ekki spennandi þá er þetta ágæt leið til þess að lífga upp á endurtekningalesturinn.

Samlestur
Nemandi og foreldri lesa saman upphátt. Hentar vel börnum með lestrarerfiðleika.

Nýtum netið
Velja grein eða frétt í dagblaði eða á netinu og lesa upphátt fyrir foreldri/forráðamann.

Lestur í hljóði/yndislestur
Barn les í hljóði og á síðan að segja foreldri frá því sem það var að lesa. Þetta er ekki aðferð sem hentar mjög hæglæsum eða ónákvæmum nemendum, nema stöku sinnum til að efla áhuga.

Framhaldssögulestur
Barn og foreldri velja sér saman sögubók og lesa hana saman upphátt fyrir hvort annað.

Áhugasviðslestur
Foreldri og barn finna í sameiningu texta eða sögu sem höfðar til áhugasviðs barnsins.

Paralestur/skiptilestur
Nemandi og foreldri skipta textanum á milli sín og lesa til skiptis (ein og ein setning eða efnisgrein). Við lestur á erfiðum texta getur verið sniðugt að nota skiptilestur, hentar einnig vel börnum með lestrarerfiðleika.

Bergmálslestur
Foreldri/forráðamaður les upphátt setningu eða efnisgrein og nemandinn les hana síðan aftur. Hentar vel börnum með lestrarerfiðleika.

Lestrarbingó
Foreldrar búi til lestrarbingó með barninu þar sem valið er í sameiningu hinar ýmsu lestrarstellingar og aðstæður eru í boði við lesturinn. Inná heimasíðu Heimila og Skóla eru hugmyndir af lestrabingó. http://www.heimiliogskoli.is/laesi/lestrarbingo/

Að hlusta og lesa
Hlustun á hljóðbók/tölvu samhliða lestri er góð æfing í sjálfvirkum lestri. Allar námsbækur sem Menntamálastofnun gefur út er hægt að nálgast sem hljóðbækur inni á https://mms.is/. Nemendur sem greindir hafa verið með lestrarörðugleika, ADHD, málþroskaröskun eða annan vanda sem getur torveldað lestur eiga rétt á aðgangi að Hljóðbókasafni Íslands https://hbs.is/

Stafsetning
Að skrifa setningar eftir upplestri
Foreldrar velja orð eða setningu úr textanum sem barnið var að lesa og lætur barnið skrifa upp eftir upplestri. Barnið fær síðan aðstoð við að fara yfir hvort rétt var skrifað ef það. Strikað er yfir rangt skrifuð orð og orðin skrifuð rétt upp til hliðar við textann. Þjálfar hljóðgreiningu og tengsl stafs og hljóðs.

Sóknarskrift
Barnið skoðar einfalda setningu eða orð og veltir fyrir sér stafsetningunni. Textinn er síðan hulinn og barnið skrifar upp eftir minni. Barnið skoðar textann vel með foreldri sínu. Strikað er yfir rangt skrifuð orð og þau skrifuð rétt upp til hliðar við textann. Þjálfar sjónminni. Hentar vel nemendum með lestrarörðugleika.

Einfaldur og tvöfaldur samhljóði
Ef barn gerir ítrekað villur í að greina að einfaldan og tvöfaldan samhljóða (hatur/hattur, skema/skemma, baka/bakka) er gott að þjálfa barnið í að hlusta á muninn á orðunum. Gott að setja upp sem leik. 
Lesskilningsaðferðir

Orðaforði
Orðaforðavinna er mjög mikilvæg og er þá verið að kenna og ræða ákveðin orð í texta, skoða merkingu þeirra, orðhluta og skyld orð. Nýta má bókmenntatexta og námsbækur sem börnin lesa eða hlusta á. Gott er að skoða sjaldgæf orð vandlega áður en kafli er lesinn. Mikilvægt er að þjálfa börn í að geta sér til um merkingu orða út frá samhengi textans. Það kemur í veg fyrir að börnin hætti lestrinum eða missi samhengi texta þó svo að þau skilji illa stöku orð.

KVL aðferðin – kann –vil vita –hef lært
Aðferðin skiptist í þrennt og er unnið með hana áður en lestur hefst, á meðan á lestri stendur og eftir að lestri lýkur. Aðferðin er einkum notuð við lestur upplýsingatexta eins og námsbækur.

1. Í fyrstu velta lesendur fyrir sér hvað þeir vita um viðfangsefnið sem þeir eru að fara að lesa um og skrá það skipulega niður. Þannig virkja þeir bakgrunnsvitneskju sína, en sú vitneskja er sá grunnur sem lesandinn byggir ætíð ofaná.

2. Því næst velta lesendur fyrir sér hvað þeir vilja vita um viðfangsefnið og skrifa það skipulega niður. Þá hefst lesturinn.

3. Að loknum lestri skrá lesendur svo niður hvað þeir lærðu um viðfangsefnið þegar þeir lásu. Þannig hafa þeir tengt nýja vitneskju þeirri sem þeir höfðu áður um efið.

4. Hægt er að bæta við fjórða liðnum, –vil vita meira. Þar er hægt að skrá niður þær spurningar sem enn er ósvarað eftir lestur textans eða hugmyndir og spurningar sem kvikna þegar lestri textans er lokið.

Gagnvirkur lestur
Gott er að prófa sig áfram með hverja aðferð sem nefnd er hér að neðan í rólegheitum. Ekki reyna að æfa allt í einu.

Áður en þú byrjar að lesa:
1. Eftir því sem þú veist meira um það sem þú lest því betur skilur þú það sem þú ert að lesa. Þess vegna er mjög gott að rifja upp og segja einhverjum frá eða skrifa hjá sér fyrirfram, það sem þú þegar veist um það sem þú ert að fara að lesa.
2. Gott getur verið að skima textann áður en lesturinn hefst. Skoðaðu fyrirsagnir og undirfyrirsagnir, myndir, töflur, kort og gröf.
3. Skrifaðu fyrirfram niður spurningar sem þú vilt fá svör við í textanum eða segðu einhverjum frá því sem þú vilt vita þegar þú ert búinn að lesa.

Á meðan þú ert að lesa:
1. Strikaðu undir eða merktu með áherslupenna lykilatriði og mikilvægar hugmyndir (alls ekki reyna að strika undir allt, heldur vandaðu þig að velja úr það sem er mikilvægast).
2. Reyndu að sjá fyrir þér í huganum það sem þú ert að lesa. Reyndu að ímynda þér það sem þú gætir heyrt, séð, snert, bragðað, lyktað o.s.fr.
3. Stoppaðu eftir nokkra stund (t.d. 3- 5 mínútur) og farðu í huganum yfir það sem þú varst að lesa. Ef eitthvað er óljóst er gott að fara til baka í textanum og reyna að komast til botns í því. Ræddu efnið við aðra, ef þú ert ekki viss um merkingu og/eða boðskap lesefnisins.
4. Spurðu sjálfan þig spurninga. Skil ég þetta? Passar þetta við það sem ég hef lært áður? Hvernig tengist þetta öðru sem ég hef lesið eða heyrt.