Íslenska

Umfjöllun um námssviðið

Málið er mikilvægasta samskiptatæki mannsins. Með því tjáir hann tilfinningar sínar, setur fram skoðanir og færir rök að þeim. Traust kunnátta í móðurmáli er undirstaða staðgóðrar menntunar og ein af nauðsynlegum forsendum fyrir virkri þátttöku í samfélaginu.
Í Aðalnámskrá grunnskóla 2013 koma fram viðmið sem sett eru af yfirvöldum sem eiga að vera leiðarljós við nám og kennslu í grunnskólum landsins. Í viðmiðum fyrir íslensku er gert ráð fyrir að við lok grunnskóla sé nemandi fær um að geta flutt mál sitt á skýran og skilmerkilegan hátt, hlustað af athygli og sett fram skoðanir sínar á sjálfstæðan hátt og rökstutt mál sitt. Nemandinn á að vera vel læs og geta lesið sér til gagns á gagnrýninn hátt og myndað sér skoðun út frá því. Hann á að vera fær um að geta beitt skipulegum og góðum vinnubrögðum við verk sín og sett fram ritaðan texta af öryggi og á skipulagðan hátt. Hann þarf einnig að geta beitt málfræðihugtökum af öryggi og gert sér góða grein fyrir hlutverki þeirra.
Tilgangur og mikilvægi
Börn hefja skólagöngu talandi á móðurmáli sínu, hvort sem um er að ræða íslensku, íslensku sem annað mál eða á íslensku táknmáli. Við þau tímamót verður skólinn sjálfkrafa virkur þátttakandi í málauppeldi barnsins ásamt heimili þess. Íslenskan fléttast inn í allar aðrar námsgreinar og hefur hún því ákveðna sérstöðu meðal þeirra. Því er lestur og góður skilningur á íslensku ásamt leikni við að beita tungumálinu, afar mikilvægur þáttur í íslenskum skólum.

Áherslur skólans varðandi kennsluhætti
Í Grunnskólanum í Borgarnesi er lögð rækt við góða og vandaða meðferð íslensks máls, jafnt í ræðu sem riti og stuðst við aðferðir heildstæðrar móðurmálskennslu, þ.e. innbyrðis tengsl þátta og viðfangsefna, innbyrðis jafnvægi þeirra og eðlilega stígandi í náminu. Lögð er mikil áhersla á lestur og læsi.
Á yngsta stigi er lögð megináhersla á grunnþjálfun í lestri, ritun og framsögn. Við lestrar- og íslenskukennslu er unnið er eftir aðferðum Byrjendalæsis (Háskólinn á Akureyri). Það einkennir kennsluhætti á yngsta stigi að lögð er áhersla á að vinna með nemendur í litlum hópum – svokölluðum hringekjum eða í stöðvavinnu. Lögð er áhersla á góða samvinnu við heimilin við lestrarnámið. Eftir því sem náminu vindur fram bætast sífellt fleiri þættir við og gerðar eru kröfur um aukna færni nemenda. Kennsluaðferðin PALS (Pör að læra saman), var innleidd í 3 – 6. bekk á haustmánuðum 2013 og eftir áramót 2014 í 2. bekk.
Á miðstigi er stöðug stígandi í þjálfun í læsi, málfræði og er m.a. kennsluaðferðin Orð af orði notuð en sú aðferð gengur út á að dýpka skilning og tilfinningu fyrir móðurmálinu.
Í nýrri Aðalnámskrá er mikil áhersla á samþættingu námsgreina. Kennsluaðferðin Byrjandalæsi er þannig uppbyggð að auðvelt er að að samþætta íslenskuna við ýmsar greinar s.s. lífsleikni, samfélagsfræði og náttúrufræði. Á miðstigi eru samfélagsfræði og íslenska gjarnan samþættar.
Á unglingastigi er lögð áhersla á að byggja ofan á þann grunn sem kominn er með áframhaldandi áherslu á læsi, ritun og framsögn ásamt því að auka skilning á málfræði og stafsetningu með það í huga að nemendur verði sem bestir málnotendur. Áhersla er á að örva nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og bera ábyrgð á eigin námi. Unnið er í lotum og í hverri loti tekið á öllum þáttum íslenskunnar.
Lestrarþjálfun fer fram með fjölbreyttu lestrarefni og lesa nemendur m.a. Íslendingasögur í hverjum árgangi og er unnið með þær á ýmsa vegu. Einnig lesa þeir þjóðsögur, goðsögur og aðrar margvíslegar textategundir ásamt því að fá þjálfun í að beita grunnhugtökum í bókmenntafræði og bragfræði.
Nemandi er þjálfaður í að beita skipulögðum vinnubrögðum við ritun og að rita fjölbreyttar textagerðir, beita mismunandi orðaforða og málsniði ásamt því að lagður er æ meiri þungi á ritgerðar- og heimildavinnu eftir því sem ofar dregur og er sú vinna oft samþætt öðrum námsgreinum m.a. samfélagsfræði og upplýsingamennt. Einnig er þeim kennt að nýta sér þær bjargir sem til eru s.s. orðabækur og orðasöfn. Í málfræði og stafsetningu er byggt ofan á það sem fyrir er og skilningur þeirra dýpkaður. Nemandi fær einnig þjálfun í framsögn og áhersla lögð á að hann geti flutt mál sitt skýrt og áheyrilega.

Uppfært 07/2014