List- og verkgreinar

Í Grunnskólanum í Borgarnesi heyra eftirtaldar greinar undir list- og verkgreinar:

  • Myndlist
  • Tónlist, leiklist, dans
  • Textílmennt
  • Hönnun og smíði
  • Heimilisfræði

Það sem sameinar allar list –og verkgreinar er áhersla á verklag, tækni, sköpun, fagurfræði og gildi, efnisþekkingu, líkamsbeitingu, túlkun og tjáningu. Hins vegar er um ólíka miðla og aðferðir að ræða eftir greinum og því ólíkar nálganir og mismiklar áherslur á framantalda þætti.

Megintilgangur og mikilvægi list- og verkgreina

List- og verknám stuðlar að alhliða þroska einstaklingsins og reynir á marga þætti. Í námi þurfa nemendur tækifæri til að virkja öll svið hæfileika sinna, nota skynfæri sín, beita þekkingu sinni, færni og skilningi til að túlka og meta upplýsingar. Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að aukinni færni til sjálfbærni. Í list- og verkgreinum fá nemendur margvísleg tækifæri til að:

  • efla ímyndunarafl sitt
  • efla sjálfstæði og sjálfstraust
  • þroskast í samvinnu við aðra
  • finna hæfileikum sínum farveg og þroska þá
  • tileinka sér leiðir til að koma sköpun sinni í verk

Megintilgangur list- og verknáms er að nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verklag, sköpunargleði, samhæfingu hugar, hjarta og handar með ólíkum tjáningarleiðum. List- og verkgreinar þroska og auka hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að átta sig á helstu styrkleikum sínum og geta fundið þeim góðan farveg.

Áherslur Grunnskólans í Borgarnesi í list- og verkgreinum

Í Aðalnámskrá grunnskóla 2013 er gerður greinarmunur á milli listgreina annars vegar og verkgreina hins vegar. Grunnskólinn í Borgarnesi leggur áherslu á samþættingu list- og verkgreina, þar sem unnin er þverfagleg vinna á þessu sviði og í raun ekki hægt að kenna verkgreinar án þess að listgreinar séu með og öfugt. Einnig á samþættingin við um tengsl list- og verkgreina við bókgreinar á mið- og yngsta stigi.

Grunnskólinn í Borgarnesi er grænfánaskóli (Skóli á grænni grein), unnið er að sjálfbærni og nemendum kennt að endurnýta og endurvinna ýmis efni og skapa nýja hluti úr þeim. Þannig tengjast list-og verkgreinar inn í verkefnið.

Grunnskólinn í Borgarnesi er uppbyggingarskóli. Samkvæmt uppbyggingarstefnunni er lögð áhersla á jákvæð samskipti, öryggi, gleði, sjálfstæði og skipulag. Uppbyggingarstefnan er höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum innan skólans og eru list- og verkgreinar ekki undanskildar.

Grunnskólinn í Borgarnesi er heilsueflandi skóli þar sem unnið er markvisst á öllum stigum eftir stefnu Landlæknisembættisins. List- og verkgreinar tengjast heilsueflingunni í gegnum þemavinnu.

Áherslur varðandi kennsluhætti:

Kennsla, nám og námsmat eru heildstætt ferli, en misjafnt er hvaða kennsluhættir og námsmatsaðferðir eru notaðar hverju sinni. Kennsluhættir í list- og verkgreinum taka mið af verklegum æfingum og þjálfun, fremur en hefðbundnu bóknámi og fyrirlestrum. Kennsla í list- og verkgreinum fer fram í mislöngum lotum.

Hlutverk list – og verkgreinakennara í hverri grein er að styðja nemandann við að þróa hugmyndir sínar, kenna honum verklag við hæfi, þjálfa hann í skapandi, greinandi og túlkandi vinnubrögðum. Nemandinn fær aðstoð við að raungera hugmyndir sínar, bæði í einstaklings- og hópverkefnum. Nám í list-og verkgreinum þarf að vera merkingarbært og fela í sér stígandi eftir getu og þroska nemenda. Kennsluhættir þurfa að mótast af virkni og sköpun þar sem þeir þættir gefa af sér áþreifanlega afurð, sem unnin er útfrá vinnulagi hverrar greinar.

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er leitast við að samþætta list- og verkgreinar við aðrar námsgreinar. Þar má nefna t.d. landnámsþema, sem unnið er í 5. bekk og bangsaverkefni í 4. bekk.

Námsmat

Námsmat tekur mið af hæfniviðmiðum fyrir hverja námsgrein sem og lykilhæfni sem sameignleg er öllum námsgreinum grunnskólans. Mikilvægt er í öllum tilvikum að endurgjöf kennarans sé leiðbeinandi, regluleg og markviss svo hún leiði til framfara nemandans. Námsmatsaðferðir í list-og verkgreinum geta verið fjölbreyttar, s.s. frammistöðumat, símat, sjálfsmat og jafningjamat. Hvaða aðferð er beitt, fer eftir eðli verkefna hverju sinni.

Frammistöðumat : Kennari skráir frammistöðu útfrá lykilhæfni Aðalnámskrár 2013.
Símat : Kennari skráir reglulega frammistöðu, verklagni, vinnusemi og samskipti. Þegar hverju verkefni er lokið, er gefin einkunn fyrir það.
Sjálfsmat : Nemandi metur á þar til gert blað, frammistöðu sína, verklagni, vinnusemi og samskipti þegar verki er lokið.
Jafningjamat : Í hópvinnu er heppilegt að nota jafningjamat. Hver hópur gefur öðrum hópum einkunn og umsögn sem skráð er á þar til gert blað.

Áherslur eftir árgöngum

1.-4. bekkur

Að nemandi
  • þekki  hugtök og heiti áhalda
  • geti unnið eftir fyrirmælum kennara og farið eftir einföldu verkferli
  • geti beitt einföldum áhöldum og temji sér vönduð vinnubrögð
  • gangi frá efnum og áhöldum eftir vinnu sína
  • geri sér grein fyrir mikilvægi sjálfbærni
  • sé meðvitaður um skapandi vinnu og tjáningu, ferlið frá hugmynd til afurðar
  • þjálfi með sér samstarfshæfni

5. -7. bekkur

Að nemandi
  • temji sér sjálfstæði og nákvæmni í vinnubrögðum
  • nýti sér margvísleg efni og tæki við fjölbreytt viðfangsefni
  • leggi mat á eigin verk og auki færni og skilning á vönduðu handbragði

8. -10. bekkur

Að nemandi
  • geti tjáð sig um verkefni sín með því að nota hugtök sem greinin býr yfir
  • geti  beitt þeirri tækni sem námsgreinin býr yfir á sjálfstæðan hátt
  • geti nýtt sér upplýsingatækni við gagnaöflun til að dýpka skilning á viðfangsefnum sínum
  • geti unnið sjálfstætt og fylgt hugmynd frá vinnuferli til endanlegs verks
  • Kynnist framhaldsnámi tengdu list- og verkgreinum

Uppfært 08/2016