Náttúrufræði

Til náttúrugreina flokkast m.a. náttúrufræði, eðlisvísindi, jarðvísindi, lífvísindi og umhverfismennt.
Tilgangur með náttúrugreinum er að auka áhuga, skilning og þekkingu nemenda á náttúru í víðustu merkingu þess orðs. Að nemendur geri sér grein fyrir stöðu mannsins í náttúrunni, því samspili sem þar fer fram og valdi mannsins yfir tækni. Þeir verði þannig hæfari til að taka ábyrga afstöðu til umhverfisins og geri sér grein fyrir mikilvægi verndunar og nýtingu náttúruauðlinda.
Nemendur kynnist nýsköpun og hagnýtingu þekkingar og hvernig þeir þættir hafa áhrif á daglegt líf. Þeir öðlist þekkingu á líkama sínum og mikilvægi hollra lífshátta.

Tengsl við Aðalnámskrá – áherslur skólans

Stefnt skal að sem flestir nemendur nái hæfniviðmiðum námskrárinnar. Þessi viðmið eru flokkuð í hæfniviðmið um verklag og hæfniviðmið um viðfangsefni og eru þessir flokkar jafnmikilvægir. Kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir skal miða við þann nemendahóp og þá einstaklinga sem um er að ræða og þau hæfniviðmið sem unnið er að hverju sinni. Áhersla er lögð á að nýta sér nærumhverfi og sérstöðu Borgarfjarðar.

Áherslur varðandi kennsluhætti

Lögð verði áhersla á heildstæð verkefni sem mótast af hæfniviðmiðum og grunnþáttum aðalnámskrár (2013) eftir því sem við á hverju sinni. Fjölbreyttir kennsluhættir eru mikilvægir í náttúrugreinum. Nemendur fái að skynja verklag og viðfangsefni sem samstæða heild, öðlist jákvætt viðhorf til náttúrugreina sem og þjálfun í vinnubrögðum. Áhersla verði lögð á að nýta nánasta umhverfi, reynsluheim nemenda og tengja viðfangsefni við daglegt líf þeirra.

Áhersla eftir aldri

Á yngsta stigi er megináherslan á nemandann og nánasta umhverfi hans. Koma þarf skipulagi á og auka skilning á þeirri vitneskju sem nemendur hafa yfir að ráða í náttúruvísindum jafnframt því að auka við þá þekkingu. Mikla áherslu skal leggja á hlutbundna vinnu, vettvangsferðir og samvinnu nemenda.
Á miðstigi er megináherslan á náttúru Íslands og líkama mannsins. Á þessu stigi eykst hugtakanám og er hvatt til að nemendur kynnist og læri hugtök náttúrufræðinnar við rannsóknir og í verklegri vinnu. Hvatt er til áframhaldandi hlutbundinnar vinnu og samvinnu. Leitast er við að efla sjálfstæði nemenda við að skipuleggja og framkvæma athuganir, rannsóknir og vinna verkefni.
Á unglingastigi er megináherslan á náttúru jarðarinnar, samspil manns og umhverfis og nemendum gerð grein fyrir afleiðingum gerða og athafna mannsins á vistkerfi jarðar. Skerpt er á þekkingu nemenda á eigin líkama og hvað felst í því að taka ábyrgð á eigin heilsu. Skilningur á efnisheiminum og eiginleikum hans er aukinn. Á þessu stigi bætist sértæk þekking ofan á þann almenna grunn sem kominn er, auk þess fá nemendur tækifæri til að yfirfæra þekkingu sína á daglegt líf. Áhersla er lögð á að auka áhuga, frumkvæði og sjálfsöryggi við öflun þekkingar og úrvinnslu. Hvatt er til áframhaldandi verklegrar vinnu, að nemendur geti beitt vísindalegum vinnubrögðum og notað algengustu hugtök og heiti við skipulag og úrvinnslu verkefna.

Námsmat

Við námsmat eru hæfniviðmið aðalnámskrár (2013) höfð til grundvallar. Áhersla er á símat þar sem vinnubrögð, framsetning verkefna, virkni, áhugi og frammistaða eru metin með fjölbreyttum hætti.