Stærðfræði

Megintilgangur náms í stærðfræði er að nemendur öðlist alhliða hæfni til að nota stærðfræði sem lifandi verkfæri í fjölbreyttum tilgangi og við ólíkar aðstæður. Í stærðfræðinámi þurfa nemendur að þróa með sér hæfni til að setja fram og leysa viðfangsefni með því að beita skapandi hugsun, ígrunda ólíkar aðferðir og líkön sem nýtast við lausnir þeirra og leggja mat á niðurstöður.

Stærðfræðikennslan þarf að stuðla að því að nemendur:

  • tileinki sér það viðhorf að það sé gagnlegt að hafa stærðfræði á valdi sínu og með ástundun geti þeir náð tökum á henni
  • öðlist hæfni í að setja fram og leysa þrautir með hjálp stærðfræðinnar og leggja mat á eigin lausnaleiðir og annarra
  • öðlist hæfni í að nota stærðfræðileg hugtök og greina tengsl þeirra
  • öðlist hæfni í að nota tungumál stærðfræðinnar til að ræða um, færa rök fyrir og útskýra eigin tilgátur og annarra, útreikninga og niðurstöður
  • öðlist hæfni í að nýta stærðfræði sem tæki til að leysa viðfangsefni og greina hvaða aðferðir henta best hverju sinni.

Gera skal ráð fyrir fjölbreyttum námsleiðum og kennsluháttum. Kennarar bera faglega ábyrgð á að velja leiðir að markmiðum Aðalnámskrár. Þeir þurfa að hafa í huga að námsbækur eru eitt af verkfærum kennara í starfi, einar og sér uppfylla þær ekki fjölþætt markmið námskrárinnar. Mikilvægt er að bjóða öllum nemendum upp á fjölbreytt viðfangsefni þar sem þeir þjálfast markvisst í að gera athuganir, ræða saman í hóp, greina, flokka og skrá skipulega niður og kynna niðurstöður sínar fyrir öðrum.

Kennslunni þarf að haga þannig að nemendur fái áhuga á stærðfræði, að þeim áhuga sé viðhaldið og að nemendur öðlist tiltrú á eigin hæfni til að beita henni við margvíslegar aðstæður og leysa fjölbreytt viðfangsefni. Stærðfræði getur stuðlað að gagnrýnni hugsun og aukinni ábyrgð nemenda í daglegu lífi, m.a. hvað varðar ákvarðanir um eigin fjármál og neyslu.

Kennsluhættir og námsmat

Nemendur í grunnskóla þurfa að læra stærðfræði sér til skilnings og að hún hafi merkingu í huga þeirra. Kennsluhættir skulu taka mið af því að stærðfræði er skapandi grein og öflugt tæki til röksemdafærslu og gagnrýninnar hugsunar. Kennslan þarf að byggjast á virðingu fyrir hugsun nemenda, margbreytileika þeirra og miða að því að stærðfræðin verði þeim öllum uppspretta merkingar. Í skólastofu, þar sem markmiðið er að nemendur öðlist skilning á stærðfræði, vinna þeir saman og greina, meta og byggja á framlagi hvers annars.

Í stærðfræðinámi þurfa nemendur að fá að nota fjölbreytt verkfæri sem hjálpa þeim til að öðlast skilning á vinnubrögðum, hugtökum og reglum stærðfræðinnar. Áþreifanleg verkfæri og hvers kyns líkön auðvelda nemendum að skilja stærðfræðina ef þeir fá að handleika þau og nota til að leysa verkefni. Lestur stærðfræðitexta og frásagnir nemenda, bæði munnlegar og skriflegar, eru verkfæri þeirra til að skerpa skilning sinn og öðlast hæfni í að nýta stærðfræði sem tæki til lausna. Til að sýna hæfni í stærðfræði ættu nemendur að fást við heildstæð verkefni, þar sem þeir leita upplýsinga, rannsaka, vinna úr gögnum og túlka niðurstöður sínar.

Megintilgangur námsmats í stærðfræði er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð settum markmiðum. Við mat á námi skal leitast við að finna hvað nemandinn getur og matsverkefni þarf að setja þannig fram að hann geti sýnt þekkingu sína. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat, sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum, til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skal stefna. Form námsmatsverkefna þarf að vera fjölbreytt og í samræmi við kennslutilhögun. Þannig séu metin munnleg, verkleg og skrifleg verkefni, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópverkefni. Jafnframt verkefni sem unnin eru heima og í skóla. Mikilvægt er að virkja foreldra til þátttöku í stærðfræðináminu, að þeir styðji sem best við námið og fái reglulega upplýsingar um kennsluna og námsmat.

Við val á viðfangsefnum í stærðfræðinni er mikilvægt að huga að samþættingu við sem fjölbreyttastar námsgreinar og skapa þannig tækifæri til samfellu í náminu. Gott er að hafa í huga að með því að gefa nemendum kost á að velja viðfangsefni er auðveldara að komast til móts við áhugasvið og getu hvers og eins.

Uppfært 07/2014