10. bekkur tekur þátt í Pisa könnuninni í dag

Ritstjórn Fréttir

PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti könnunarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD.
Alls taka yfir 80 þjóðir þátt í könnuninni, þar af 34 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
PISA – könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti með sérstakri áherslu á eina af greinunum þremur hverju sinni. Sú námsgrein sem áhersla er lögð á tekur 2/3 af próftímanum en hinar tvær skipta á milli sín 1/3 próftímans. Með þessari aðferð fæst ekki aðeins samanburður milli landa heldur einnig milli tímabila, nokkuð sem ekki hefur verið gert áður í svo yfirgripsmikilli rannsókn.
PISA er langtímarannsókn sem staðið hefur yfir frá árinu 1998 og fjölmargir aðilar, þar á meðal sérfræðingar í lestri, stærðfræði og náttúrufræði, hafa komið að undirbúningi og framkvæmd verksins.
Tveggja klukkustunda löng skrifleg könnun er lögð fyrir hvern nemanda í 10.bekk í öllum skólum. Spurningarnar eru blanda af krossaspurningum og opnum spurningum. Nemendur svara einnig 20-30 mínútna löngum spurningalista þar sem aflað er ýmissa grunnupplýsinga um þá sjálfa. Auk þess svara skólastjórar 30 mínútna spurningalista um ýmsa þætti í skólastarfinu.
PISA er samstarfsverkefni þátttökuþjóða sem allar taka þátt í stefnumótun og þróun PISA. Færni á hverju og einu sviði, þ.e. í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði, er skilgreind sem sú færni sem einstaklingurinn þarf á því sviði til að takast á við framtíðina, leysa verkefni sem daglegt líf krefst af honum og nýta þekkingu við raunverulegar aðstæður.