Ofurbekkjaleikarnir

Ritstjórn Fréttir

Ofurbekkjaleikarnir – 9. BHG sigurvegari
Undanfarin ár höfum við haldið íþróttaleika þar sem keppt hefur verið í óhefðbundnum íþróttagreinum. Í ár var ákveðið að Leikarnir færu fram á síðasta kennsludegi skólaársins. Í aðdraganda leikanna var efnt til keppni um nafn á þá og dómnefnd sem skipuð var óháðum kennurum (ekki umsjónarkennurum) valdi síðan úr fjölda tillagna. Að mati dómnefndarinnar kom besta tillagan úr 7. HH og heita leikarnir ,,Ofurbekkjaleikarnir.“ Bikar með þeirri áletrun verður nú farandbikar í eldri deildinni og árlega keppt um hann á síðasta degi skólaársins.
Nemendur 7. – 9. bekkjar mættu í gærmorgun til umsjónarkennara sinna og bjuggu sig í einkennisbúninga og héldu síðan að íþróttahúsinu. Það voru íþróttakennararnir sem stjórnuðu leikunum og var keppt m.a. í eggjagripi, boðhlaupi og gúmmískóakasti. Að því loknu var farið í Skallagrímsgarð, þar sem nesti var borðað og sigurvegurum Ofurbekkjaleikanna, 9. BHG afhentur bikarinn. Í 2. sæti urðu nemendur 7. ES. Að lokum fóru nemendur í sund eða út í sumarið.