Þriðjudaginn 7. september fórum við í 5. bekk í Einkunnir. Við fórum af stað strax um morguninn með rútu frá Sæmundi. Fyrst fórum við að Álatjörn og gerðum ýmsar athuganir þar. Við mældum hita- og sýrustig vatnsins, tókum sýni úr botni vatnsins og reyndum að finna ýmsar lífverur til að taka með upp í skóla. Hilmar, aðstoðarskólastjóri, óð upp fyrir mitti út í tjörnina til að athuga hvort eitthvað væri í álagildrunni sem hann hafði sett út í hana nokkrum dögum áður. Þar var ekkert. Svo fórum við í göngutúr og sáum hrafnshreiður, sem er víst kallaður laupur. Að lokum fórum við inn í skógarrjóðrið og þar var kveiktur eldur og hitað vatn. Við lékum okkur þarna og síðan fengum við volgt kakó áður en við fórum aftur upp í skóla.
Á miðvikudag reyndum við svo að greina þær lífverur sem við fundum. Við lærðum að nota greiningarlykil fyrir lífverur í vatni og skoðuðum svo lífverurnar og sýnin í víðsjám. Hornsílin voru flest, svo var þar ein brunnklukka og tjarnartíta.
Á fimmtudag fórum við svo í náttúrufræðistofuna og fylgdumst með Hilmari kryfja lax og skoðuðum og lærðum um innyfli fiska.
Fréttaritarar: Gabríel, Snæþór, Jakub, Þorkell, Aron, Þórhildur, Ríta, Heba, Steinunn og Svava