90 ár frá vígslu skólahúsnæðis

Ritstjórn Fréttir

Fyrir 90 árum, 8. nóvember 1913 var nýtt barnskólahús vígt í Borgarnesi. Bar þann dag upp á laugardag líkt og nú! Í þessu tilefni voru fengin tvö skáld sem þá voru í miklum metum þeir Guðmundur Guðmundsson og Valdimar Briem til að yrkja vígsluljóð sem sungin voru við skólavígsluna (hægt að nálgast þau hér).
Í bókinni Hundrað ár í Borgrnesi sem Jón Helgason skráði segir að skólavígslan þótti hin mesti viðburður. Allir Borgarnesingar sem vettlingi gátu valdið flykktust í nýja skólahúsið, fyrstu sameign þeirra allra.
Í skólanámskrá er fjallað um þennan atburð, þar stendur:
„Árið 1913 varð Borgarnes sérstakt hreppsfélag. 21. júní það ár hófst vinna við byggingu skólahúss. Verkinu lauk 7. nóvember sama ár. Þetta hús var 9×14 m á einni hæð, tvær kennslustofur. Húsið kostaði 7.404.15 kr. og var fjármagnað með styrk úr Landssjóði kr. 2.700 og með láni frá Landsbanka Íslands kr. 4.000. Í húsi þessu var kennt til ársloka 1948. Síðar var Samkomuhúsið byggt í framhaldi af skólanum og er hann nú vesturendi og aðalinngangur samkomuhússins.”