Dagana 22.-24. september síðastliðinn fóru nemendur 10. bekkjar í skólaferðalag sem var skipulagt sem óvissuferð og voru það foreldrar sem báru hita og þunga af öllum undirbúningi ásamt því að tveir foreldrar fóru með í ferðina auk umsjónarkennara. Ferðin var mjög skemmtileg og vel heppnuð í alla staði.
Miðvikudagur 22. september
Rúmlega eitt, eða strax eftir síðasta samræmdakönnunarprófið var lagt af stað út í óvissuna og keyrt í norður. Eftir u.þ.b. þriggja klukkustunda akstur komum við á Sauðárkrók þar sem farið var í skotfimi. Þar fegnum við fræðslu um meðferð skotvopna, prófuðum að skjóta úr haglabyssu, riffli og boga. Eftir þetta var farið í klettasig í Hegranesi og þaðan í Ólafshús á Sauðárkróki þar sem við fengum pizzur. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var farið í Varmahlíð þar sem við komum okkur vel fyrir í þremur sumarhúsum. Fyrir utan sumarhúsin var stór heitur pottur sem var að sjálfsögðu notaður.
Fimmtudagur 23. september
Eftir morgunmat keyrðum við til Akureyrar þar sem við fórum í keilu og á skauta. Þegar allir voru komnir með nóg af skautunum fengum allir frjálsan tíma þar sem hver og einn gat gert það sem hann vildi. Þegar við fórum frá Akureyri lá leið okkar til Árskógssands þar sem við fórum í “paintball”. Eftir það fórum við aftur í Varmahlíð þar sem við fengum kjúkling og franskar og skelltum okkur svo í pottinn við húsin okkar.
Föstudagur 24. september
Vöknuðum á sama tíma og daginn áður, borðuðum morgunmat, útbjuggum okkur nesti, tókum dótið okkar til og gengum frá húsunum. Keyrðum að Vindheimamelum í Skagafirði þar sem hópnum var skipt í tvennt annar hópurinn fór í Glaumbæ á meðan hinn fór á hestbak og svo var skipt. Frá Vindheimamelum var farið í ,,river rafting” á vestari Jökulsá (sem var hápúnktur ferðarinnar að allra mati). Margir blotnuðu nokkuð í ánni, þannig að ákveðið var að við myndum skella okkur í sund/sturtu í lauginni á Steinsstöðum. Þaðan héldum við svo heim á leið með stoppi á Blönduósi þar sem við fengum okkur að borða. Við komum svo heim í Borgarnes kl. 22:05.