Í tilefni þess að nú eru víða um land haldnir borgarafundir um einelti á vegum Heimilis og skóla og fleiri aðila er láta sig málefnið varða, hefur sjónum nemenda í Grunnskólanum í Borgarnesi verið beint að einelti og því hvað það getur þýtt. Hefur markvisst verið unnið í öllum bekkjum að fræðslu um málefnið, í máli og myndum, og hafa nemendur unnið verkefni því tengt. Nemendur eldri deildar sóttu sérstakan jafningjafræðslufund sem þeim var boðið til af þeim sem þessu átaki stýra og var gerður góður rómur að því sem þar kom fram, m.a. leikriti sem nokkrir nemendur skólans fluttu. Verður það einnig flutt á borgarafundi í MB í kvöld.
Á morgun, föstudag kl. 8:30, ætla síðan allir nemendur skólans og starfsmenn að fara út á lóð, takast í hendur og mynda keðju umhverfis skólann og sýna útreikningar að það eigi að takast að loka hringnum og mynda þannig skjaldborg um hann.