Stíll 2010

Ritstjórn Fréttir

Við fórum á Stíl 2010, fjórar stelpur frá Borgarnesi. Hanna (módel), Guðný, Hulda og Úrsúla sem var að fara að syngja og aðstoðaði okkur. Guðný, Úrsúla og Hulda fóru til Reykjavíkur með Helgu, sem hjálpaði okkur með kjólinn. Valur og Friðný komu líka með en Valur var að spila á gítar í skemmtiatriði með Úrsúlu og Hönnu. Þau sungu lagið Dear mr. President með Pink. Við hittum Hönnu í Smáralindinni og fengum okkur að borða. Við skráðum okkur inn eftir næringuna en við komum það snemma að við þurftum ekki að standa lengi í röðinni. Reyndar var þá þegar kominn hellingur af fólki, en alls tóku 64 lið þátt í keppninni. Hönnu brá, en Hulda og Guðný fóru í fyrra til þess að horfa og voru við öllu búnar. Eftir að Valur, Úrsúla og Hanna voru búin með skemmtiatriðið hljóp Hanna niður af sviðinu og stelpurnar byrjuðu strax að mála hana. Í fyrstu vorum við í miklu stressi vegna lítillar æfingar, en svo áttuðum við okkur á því að við höfðum alveg nógan tíma og vorum alveg slakar. Loks var komið að því! Hanna var send í röð til þess að fara upp á svið. Hún þurfti að labba þrisvar. Í fyrsta skipti var hún kynnt og þá var sagt frá hugmyndinni á bak við kjólinn. Í annað sinn var félagsmiðstöðin okkar kynnt betur og í þriðja skipti var ekkert kynnt, bara nokkrir í hóp sem gengu í einu á sviðinu og sýndu kjólana í síðasta skipti. Verðlaunaafhendingin var spennandi, en við unnum ekki til verðlauna. Þetta var samt ótrúlega skemmtileg reynsla og við vorum mjög ánægðar með hvernig þetta gekk allt fyrir sig.
Hanna Ágústa og Guðný Hulda