112 dagurinn

Ritstjórn Fréttir

112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi og velferð barna og ungmenna. Dagurinn markar upphaf vitundarvakningar á vegum 112 um ofbeldi gegn börnum í tengslum við nýja gátt á 112.is um ofbeldi í nánum samböndum. Vitundarvakningin fer fram í samvinnu við og með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins.

Skilaboð 112 og samstarfsaðila 112-dagsins til almennings í tilefni dagsins eru:

  • Að allir viti hvað telst ofbeldi gegn börnum.
  • Að fólk þekki úrræðin sem eru í boði og hiki ekki við að láta vita í 112 ef grunur leikur á að barn sé vanrækt eða beitt ofbeldi.

Nánari upplýsingar er að finna á gátt um ofbeldi í nánum samböndum á 112.is. Þar geta börn og fullorðnir meðal annars átt netspjall við neyðarverði um einstök mál.

Í tilefni dagsins fór björgunarsveitarfólk, sem jafnframt er starfsfólk við skólann okkar, í bekki og minnti á símanúmerið 112. Rætt var um við hvaða aðstæður skuli hringja í 112 og hvaða viðbragðsaðilar eru á bak við það númer. Sérstök áhersla var lögð á að ná spjalli við nemendur á mið- og unglingastigi. Vakin var athygli á gáttinni um ofbeldi í nánum samböndum en þar er að finna fróðleik  um ólíkar gerðir ofbeldis, hvað felst í heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum og hvaða úrræði eru í boði.

Þá var spjallað um björgunarsveitarmál o.fl. og nemendur upplýstir um að bílalest viðbragðsaðila verði á ferðinni á milli kl. 18:00 og 18:30 í dag. Ekki þarf því að láta sér bregða þótt vart verði við ljós og sírenur.

Á myndinni má sjá Elínu Matthildi Kristinsdóttur ræða við nemendur 8. bekkjar.