Skíðaferð 8. bekkjar

Ritstjórn Fréttir

Dagana 10.-11. febrúar fór 8. bekkur í skíðaferðalag til Sauðárkróks ásamt fríðu föruneyti. Lagt var af stað snemma á fimmtudagsmorgni í blíðskaparveðri og stefnan tekin á Tindastól. Strax eftir hádegi voru allir komnir á skíði eða bretti og dvöldum við í fjallinu fram eftir degi við hinar bestu aðstæður. Seinnipartinn komum við okkur svo fyrir þar sem við gistum, í gömlu félagsmiðstöðinni í Árskóla og eftir það fóru flestir í sund eða göngu. Um kvöldið fórum út að borða í Ólafshúsi og eftir það var okkur boðið að koma og heimsækja nýju félagsmiðstöðina sem kallast “Hús frítímans”, en þar skemmtum við okkur konunglega fram eftir kvöldi.
Morguninn eftir fengum við morgunmat í skólanum, gengum frá öllu út í rútu og vorum komin upp á skíðasvæði kl. 10:00. Því miður urðum við frá að hverfa vegna versnandi veðurs og urðum við því að keyra heim á leið. Við stoppuðum góða stund í Staðarskála á meðan við biðum af okkur veðrið en vorum svo komin heim um kl. 16:00. Þar sem að seinni dagurinn fór svona var strax tekin sú ákvörðun að bæta hann upp með dagsferð síðar í vetur.
Það má sjá fleiri myndir með því að smella á flipann „Myndir“ hér að ofan og velja þar myndamöppu úr ferðinni.