Litróf kennsluaðferðanna

Ritstjórn Fréttir

Vorið 2003 var leitað til Ingvars Sigurgeirssonar prófessors við Kennaraháskóla Íslands að stýra námskeiði sem tæki á fjölbreytni kennsluaðferða. Það varð úr að fá námskeið sem Ingvar hefur verið með áður og ber heitið Litróf kennsluaðferðanna. Undanfarna mánuði eða frá 12. ágúst 2003 hafa grunnskólakennarar og stuðningsfulltrúar Borgarbyggðar tekið þátt í þessu námskeiði til þess að efla þekkingu og áhuga sinn á litrófi kennsluaðferðanna.
Markmið námskeiðsins voru eftirfarandi:

  • Auka hæfni í að meta og velja kennsluaðferðir
  • Efla umræðu um þróun kennsluhátta innan skólanna
  • Skapa sameiginlegan vettvang fyrir kennara skólanna til að dýpka þekkingu sína á fjölbreyttum og áhugaverðum kennsluaðferðum
  • Kennarar kynni sér innlendar og erlendar heimildir um kennsluaðferðir og nýti þær í kennslu – sérstök áhersla er lögð á að þátttakendur kynnist Netinu sem upplýsingaveitu um kennsluaðferðir
  • Kennarar prófi kennsluaðferðir og leggi mat á hvernig til tekst

Námskeiðið hófst með tveggja daga vinnu í ágúst þar sem Ingvar Sigurgeirsson hélt inngangsfyrirlestur um kennarann og kennsluaðferðirnar. Eftir fyrirlesturinn var unnið í hópum að undirbúningi verkefna. Framhaldsvinnan fólst síðan í því að þátttakendur héldu áfram verkefnavinnu í hvorum skóla (Borgarnes og Varmaland) fyrir sig. Þátttakendur héldu áfram lestri og umræðum um efni bókanna Litróf kennsluaðferðanna og Listarinnar að spyrja. Verkefnum var skilað inn á málstofu námskeiðsins. Þann 17. desember var haldinn lokafundur þar sem þátttakendur kynntu verkefni sín og ræddu um kosti og galla námskeiðsins. Það var skoðun flestra að námskeiðið hafi gert hópnum gott, m.a. fékk fólk svipaðan skilning á hugtökum, það fékk fagorð yfir þær kennsluaðferðir sem það hafði notað lengi en kallað ýmsum ólíkum nöfnum einnig fengu kennarar aukið sjálfstraust þar sem það kom í ljós að þeir notuðu fjölbreyttari kennsluaðferðir en þeir gerðu sér grein fyrir.
Það er von okkar að samræðan eigi eftir að skila sér til áframhaldandi þróunarvinnu við skólann. Helsti gallinn á þessari vinnu að mati kennara var tímaleysi, þeim fannst þeir ekki hafa nægan tíma til að vinna eins vel og þeir vildu.