Uppeldisaðferðir og velferð barna og unglinga

Ritstjórn Fréttir

Dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor heldur örnámskeið fyrir foreldra þar sem samskipti foreldra og barna verða í brennidepli. Áhersla verður lögð á vænlegar leiðir foreldra við að hlúa að margvíslegum þroska barna sinna; einnig velferð þeirra í tengslum við vímuefnaneyslu og námsgengi. Sérstaklega verður hugað að því hvernig vinna megi með ágreiningsmál. Umfjöllunina byggir Sigrún meðal annars á eigin rannsóknum. Námskeiðið, sem ber yfirskriftina Ræðum saman heima: Uppeldisaðferðir foreldra og velferð barna og unglinga, er eitt fjögurra örnámskeiða sem Menntavísindasvið býður upp á á miðvikudagskvöldum í september, en sviðið fagnar aldarafmæli Háskóla Íslands með veglegri dagskrá og viðburðum í mánuðinum. Námskeiðið fer fram í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í stofu H-101 og stendur frá kl. 20.00-22.00.
Sigrún segir foreldra vilja börnum sínum allt það besta og sé umhugað um velferð þeirra. Hún segir þó foreldra geta lagt sig mun betur fram í því að ræða við börnin. Verja meiri tíma í að ræða saman um lífið og tilveruna. Á örnámskeiðinu mun Sigrún huga sérstaklega að því hvernig vinna eigi með ágreiningsmál við börn. „Þegar upp kemur ágreiningur við börnin eru algengustu mistök foreldra að byrja á því að skamma þau. Slík viðbrögð setja börnin í varnarstöðu, þau hrökkva í lás, finnst jafnvel mamma og pabbi ósanngjörn og þá er mun erfiðara að fá þau til að til samstarfs við að leysa málið. Vænlegara er að leita á opinn hátt eftir skoðun þeirra, hvað þeim finnst um málið, lýsa síðan sinni afstöðu og skapa þannig umræðugrundvöll. Á þann hátt er líklegra að börnin finni foreldrar þeirra bera virðingu fyrir skoðunum þeirra og að umhyggja foreldra fyrir þeim er leiðarljósið. Með því móti skapast andblær ástúðar og reglu sem einkennir jákvæðan aga,“ segir Sigrún.
Sigrún hyggst einnig ræða um börn og unglinga og vímuefnaneyslu. Hún segir ljóst að vímuefnaneysla foreldra og vinahópsins skipti miklu máli. Uppeldisaðferðir foreldra skipti líka miklu eins og rannsóknir, bæði hér á landi og um allan heim, sýni. Þar kemur fram að börn eru ólíklegri til að neyta vímuefna í óhófi ef þau alast upp við það að foreldrar þeirra ætlast til að þau sýni þroskaða hegðun og leggja áherslu á samræður við börnin. „Þeir setja jafnframt skýr mörk um hvað er tilhlýðilegt og hvað ekki, nota til þess útskýringar og hvetja börnin til að skýra út sjónarmið sín. Gagnkvæmt traust myndast á milli foreldranna og barnanna sem er svo mikilvægt. Samstarf þeirra sem koma að uppeldi barnsins skiptir einnig miklu um að halda unglingum sem lengst frá vímuefnaneyslu: samstarf foreldra, félagasamtaka, skóla og annarra sviða sveitarfélagsins og þjóðfélagsins sem snerta uppeldi og menntun,“ segir Sigrún.
Sigrún hefur haldið fjölmarga fyrirlestra fyrir foreldra og forráðamenn barna og unglinga. Hún er höfundur bókarinnar Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar og hefur skrifað fjölda greina um uppeldi og menntamál.
Námskeið Sigrúnar er það fyrsta af fjórum slíkum í september. Miðvikudaginn 14. september verður námskeið um áhrif tónlistarnáms á heila, þann 21. september um börn og næringu og 28. september verður fjallað um sjálfbæra þróun og sjálfbærnimenntun í nýrri aðalnámskrá.
Allir velkomnir.