Við í 10.bekk fórum í ótrúlega skemmtilegt skólaferðalag í síðustu viku, dagana 28. – 30. september.
Farið var norður í Skagafjörð, með viðkomu á Skagaströnd, Akureyri, Dalvík, Siglufirði og Hofsósi. Gistum við í nokkrum litlum bústöðum í Varmahlíð. Fyrsta daginn fórum við á sjóstöng og í skotfimi. Var það mjög gaman, þó sumir hefðu fundið fyrir smá sjóveiki enda var mjög mikil undiralda og báturinn vaggaði heldur betur hressilega en engin hætta á ferðum enda er Viggó Drangeyjajarl, sem var með okkur , vanur sjóari. Karlarnir í Skotveiðifélaginu Ósmann á Sauðárkróki kunna heldur betur að taka á móti hópum og fengum við að skjóta úr fjölbreyttum skotfærum, bæði byssum og boga. Miðvikudaginn enduðum við á að borða gómsætar pizzur á Kaffi Krók og höfðum síðan kósýkvöld í Varmahlíð og kíktum í pottinn.
Fimmtudaginn tókum við snemma enda langur ferðadagur framundan. Eftir morgunmat keyrðum við til Akureyrar þar sem við fórum á skauta og síðan í keilu. Var það mjög gaman, þrátt fyrir nokkrar byltur á svellinu og misgóða takta í keilu. Síðan var smá frjáls tími á Glerártorgi þar sem sumir versluðu en aðrir létu sér nægja að rölta um og skoða. Hádegismaturinn var gómsætt lasange og hvítlauksbrauð á Greifanum og síðan fórum við og fengum okkur Brynjuís, sem er víst skylda að gera á Akureyri. Eftir það keyrðum við til Dalvíkur þar sem amma og afi Filippíu tóku á móti okkur með pompi og prakt, og buðu okkur uppá ljúffengar veitingar sem runnu hratt niður þó enginn væri svangur. Hafsteinn „afi“ sýndi okkur plötu og geisladiskasafnið sitt sem inniheldur ansi fjölbreytt safn af íslensku efni. Eftir þessa skemmtilegu heimsókn var ferðinni heitið til Siglufjarðar þar sem við skoðuðum Síldarminjasafnið. Þar var líka opinber heimsókn utanríkisráðherra Noregs og tókum við á móti þeim og hittum m.a. íslenska utanríkisráðherrann sem var hress og kátur. Ferðadaginn enduðum við á að synda í nýju sundlauginni á Hofsósi og borðuðum góðan mat á veitingastaðnum Sólvík. Við komum ekki í bústaðina fyrr en seint um kvöldið og tókum það rólega fram að háttatíma.
Föstudagurinn byrjaði á að ganga frá bústöðunum, fara í morgunmat og síðan var keyrt á Vindheimamela þar sem farið var í litbolta (paintball). Það var ótrúlega gaman og ekkert gefið eftir, skotið og skotið. Eftir léttan hádegismat fórum við í riverrafting eða flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Gekk það vel þrátt fyrir að nokkrir hefðu endað útí ánni, en engin hætta var á ferðum. Eftir volkið í ánni fórum við í pottana á staðnum, fórum í Varmahlíð og borðuðum kjúkling sem rann ljúflega niður eftir viðburðaríkan dag. Þá var ekkert annað að gera en koma sér af stað heim, í rokinu, og frábæru skólaferðalagi var víst lokið.
Þessi ferð tókst alveg frábærlega, allir kátir, hressir og kurteisir og fengum við allsstaðar góða umsögn fyrir góða umgengni. Við lifum lengi á þessari ógleymanlegu ferð.
Nokkrar myndir fylgja með og þar sjáið þið hvað var gaman hjá okkur.
Inga Margrét og Kristín María, umsjónakennarar í 10.bekk.