Netvædd áhugakönnun

Ritstjórn Fréttir

Innan skamms fer af stað gagnasöfnun fyrir verkefnið Þróun netvæddrar áhugakönnunar fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Verkefnisstjóri er Sif Einarsdóttir, dósent við Kennaraháskóla Íslands og er verkefnið styrkt af RANNÍS og starfsmenntasjóði Félagsmálaráðuneytisins.
Grunnskólinn í Borgarnesi lenti í tilviljunarúrtaki sem valið var úr lista yfir alla grunnskóla á landinu. Lögð verður fyrir þróunarútgáfa af áhugakönnuninni fyrir nemendur í 10. bekk skólans. Sem þakklættisvott fyrir þátttökuna verður skólanum boðið frí afnot af könnuninni fyrir 10. bekkjar árgang skólans þegar hún verður tilbúin vorið 2005.

Tilgangur verkefnis
Mikill skortur hefur verið á skilvirkum og ódýrum matstækjum fyrir námsráðgjafa sem að gagni koma þegar að aðstoða þarf nemendur við náms- og starfsval. Mat á starfsáhuga leikur lykilhlutverk í námsráðgjöf og leggur grunninn að því að nemendur geti skipulagt leit og tekið ígrundaðar ákvarðanir um nám og störf. Meginmarkmið verkefnisins er að þróa áhugakönnun sem endurspeglar íslenskan vinnumarkað og tekur mið af því náms- og starfsframboði sem nemendur standa frammi fyrir við lok 10. bekkjar. Til að draga úr kostnaði og fyrirhöfn við notkun áhugasviðsmats verður könnunin aðgengileg á netinu. Samhliða fer fram þróun á áhugakönnun fyrir framhaldsskólanema og uppbygging netvædds gagnagrunns sem inniheldur upplýsingar um nám og störf.