Heimsókn 10. bekkjar til Danmerkur

Ritstjórn Fréttir

Dagana 15.- 22. maí verður 10 bekkur í heimsókn í Danmörku. Þau munu dvelja 5 daga í heimsókn hjá nemendum Vallekilde- Hörve Friskole og 2 daga í Kaupmannahöfn.
Dagskrá heimsóknarinnar er mjög fjölbreytt og verður nánar sagt frá henni síðar.
Aðdragandi að þessari heimsókn hefur verið langur.
Á haustdögum 2002 vann ráðgjafi skólans í upplýsingamennt, Þór Jóhannsson að því að koma á samskiptum milli bekkja í vinabæjum Borgarness. Nemendur í Vallekilde Hörve- Friskole sem tilheyrir Dragsholm kommune, voru áhugasamir og óskuðu fljótlega eftir að fá að heimsækja jafnaldra sína í skólanum hér á vordögum 2003. Það var þáverandi 9. bekkur sem veturinn 2002-2003 undirbjó heimsókn Dananna með ýmsum hætti, ásamt dönskukennaranum Ingibjörgu Grétarsdóttur og Þór Jóhannssyni.
Nemendur útbjuggu vefsíður um sig á dönsku og ensku, þýddu kynningarbæklinga um heimabyggð sína yfir á dönsku, og skrifuðu bréf og kort. Kennarar skipulögðu dagskrá heimsóknarinnar. Þegar nær dró að heimsókn Dananna, komu foreldrar 9. bekkja inní þessa samvinnu og tóku með myndarlegum hætti á móti gestunum í apríllok 2003 ásamt unglingunum, skólanum, bæjaryfirvöldum og Norræna félaginu.
Foreldrar barnanna í 9. bekk tóku síðan þá ákvörðun að við myndum þiggja heimboð til Danmerkur vorið 2004 og hefja söfnun strax fyrir ferðinni. Nefnd var var sett á laggirnar til að vera í forsvari fyrir söfnuninni, í henni eru Guðrún Vala Elísdóttir, Magnús Valsson og Rebekka Björk Þiðrikssdóttir. Í stuttu máli má segja að söfnunin hafi gengið mjög vel og er það ekki síst að þakka mjög óeigingjörnu starfi nefndarinnar, sem hefur staðið sig frábærlega vel, sem og foreldrahópurinn sem hefur verið mjög öflugur, staðið vaktina og stutt við sína unglinga í hinum ýmsu verkefnum. Viljum við koma á framfæri þökkum til bæjarbúa, bæjaryfirvalda, Sparisjóði Mýrasýslu, Kbbanka Borgarnesi og allra þeirra sem hafa sýnt okkur stuðning í söfnuninni.