Pistill

Ritstjórn Fréttir

Nú er vorið komið segja sumir eða mjög að nálgast. Páskar yfirstaðnir og síðasta törnin í skólanum hafin. Það er nú þannig að vordagarnir eru oft vel til þess fallnir að bregða út af vananum og stíga út fyrir skólastofuna. Munum við gera það líkt og áður og gera starfið með því fjölbreyttara og skemmtilegra. Náttúran í nágrenni skólans, Skallagrímsgarður, fjaran og ekki hvað síst Einkunnir eru perlur sem nýtast vel í þessum tilgangi. Eins námsferðir á ýmsa staði.
Hefð er fyrir ferð í Dalina og í Reykholt. Einhverjar ferðir eru svo farnar til Reykjavíkur þar sem ýmislegt verður aðhafst, söfn heimsótt og farið á sjó. Síðustu vikur maímánaðar verður óhefðbundin starfsemi hjá 10. bekk, starfsfræðsla, skyndihjálparnámskeið og önnur fræðsla sem þeim kemur að gagni. En núna erum við að huga að því hvað við getum gert betur til að bregðast við auknum kvíða, einelti og slakri sjálfsmynd, sérstaklega stúlkna, en þessir þættir koma að okkar mati ekki nógu vel út úr síðustu mælingu Skólapúlsins. Kristín Tómasdóttir hélt fyrirlestur um sjálfsmynd fyrir stúlkurnar í 7. – 10. bekk s.l. föstudag og hlaut hann góðar undirtektir. Eins hafa nemendur í 9. og 10. bekk fengið fræðslu um sjálfsmynd, sjálfsstyrk og fleiri þætti í kjölfar sýningar myndarinnar „Fáðu já“.
Mikil umræða hefur orðið hér innan húss, sem og í héraðinu öllu, í kjölfar fjölmenns borgarafundar um einelti þann 19. mars. Á starfsdegi strax eftir páska var tekin mikil og góð umræða um þetta efni og hvernig við getum lagt okkar að mörkum. Eineltisáætlunin var rædd og skoðað hvað þyrfti breytinga við og á hverju mætti skerpa. Er vinna í þessa veru hafin hér innanhúss. Eineltisáætlunin og tilkynningareyðublað er að finna á heimasíðunni undir „Upplýsingar – einelti“. Þegar endurskoðun lýkur verður stefnan kynnt með áberandi hætti. Það er ekki ásættanlegt að börnum líði illa. Því mun skólinn taka fullan þátt í þeirri vinnu sem þarf til að úr því megi bæta.