Um skólasókn í 8. – 10. bekk

Ritstjórn Fréttir

Hver nemandi í 8. – 10. bekk byrjar með skólasóknareinkunnina 10 í upphafi hverrar annar. Fjarvistir og óstundvísi koma til frádráttar upphaflegri einkunn, samkvæmt eftirfarandi reglum:
a) Of seint (S): Nemandi sem kemur eftir að kennsla er hafin fær Seint. Ef nemandi kemur eftir að tími er hálfnaður fær hann Fjarvist. Fyrir S í bekkjarskrá er frádráttur 0,25 stig.
b) Fjarvistir (F): Fyrir F í bekkjarskrá er frádráttur 0,5. Ef nemandi er fjarverandi skal umsjónarkennari, með aðstoð ritara, leita skýringa á því og meta síðan fjarvistir hans til frádráttar.
c) Nemandi sem sefur yfir sig skal fá eitt Seint þegar hann sefur yfir sig í fyrsta sinn (þó hann missi af fleiri en einum tíma). Í annað sinn fær hann Seint fyrir alla þá tíma sem hann mætti ekki í. Komi þetta fyrir oftar skal viðkomandi fá Fjarvist fyrir þá tíma sem ekki var mætt í.
Umsjónarkennari skal tilkynna einkunn fyrir skólasókn í umsjónarbekk sínum einu sinni í viku og í lok annar.
Í lok hverrar annar er þeim nemendum sem hafa mætingareinkunn 9.7 og 10.0, umbunað á einhvern hátt.
Hægt er að vinna af sér eitt seint í lok annar, með því að mæta á réttum tíma síðustu 3 vikur annar.
Viðbrögð við brotum á mætingarreglum:
8,5 Umsjónarkennari ræðir við nemanda og foreldra.
7,0 Umsjónarkennari sendir foreldrum bréf og gerir þeim grein fyrir stöðu mála og upplýsir um viðurlög verði ekki bót á ráðin.
5,5 Skólastjóri sendir foreldrum bréf og gerir þeim grein fyrir stöðu mála og boðar þá á fund skólastjórnenda.
Fari nemandi niður í 4,0 í skólasóknareinkunn verður upplýsingum um skólasókn hans komið til fræðslunefndar/barnaverndaryfirvalda. Jafnframt missir viðkomandi nemandi rétt til þess að fara í ferðalög á vegum skólans, enda hafi ofangreindu ferli verið fylgt.