Grunnskólinn í Borgarnesi tekur þátt í valinu á þjóðarblóminu

Ritstjórn Fréttir

Íslensk stjórnvöld ákváðu síðastliðið vor að kanna hvort tilefni gæti verið til að eitt tiltekið íslenskt blóm beri sæmdarheitið Þjóðarblóm Íslands og fólu þau Landvernd að annast framkvæmdina við þessa könnun. Meðal annars ákvað Landvernd að mælast til þess að grunnskólar landsins tækju þátt í leitinni að Þjóðarblóminu með því að hver skóli veldi með lýðræðislegum hætti eitt blóm og sendi þá tillögu til Landverndar.
Skólayfirvöld í Borgarnesi ákváðu að taka þátt í þessu verkefni. Síðastliðið vor og á haustdögum var síðan fjallaðum íslenskar plöntur og forsendur og fyrirkomulag valsins kynnt fyrir nemendum og starfsfólki.
Síðastliðinn miðvikudag, 8.september, greiddu nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi svo atkvæði um það hvert skyldi verða Þjóðarblóm Íslands.
Alls tóku 348 þátt í valinu og voru niðurstöðurnar þær að Gleym-mér-ei varð hlutskörpust, hlaut 70 atkvæði. Í öðru sæti var Blágresi með 29 atkvæði og í því þriðja Geldingahnappur með 28 atkvæði.
Þess má geta að alls hlutu 30 íslenskar jurtir atkvæði. Katrín A Magnúsdóttir fagstjóri í náttúrufræðum sá um framkvæmd á þessu verkefni að hálfu skólans
Skólablóm Grunnskólans í Borgarnesi er því Gleym-mér-ei og mun skólinn senda tillögu um það blóm til Landverndar.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar um blómið. Á vefsíðu Námsgagnastofnunar, hjá Landvernd og á vefsíðunni Flóra Íslands.
Blátt lítið blóm eitt er, lag (nótur og undirspil) og texti