Kennsla á morgun, mánudag

Ritstjórn Fréttir

Eftir hádegi í dag héldu kennarar skólans fund þar sem staða mála í kjölfar lagasetningar var rædd frá ýmsum hliðum. Þrátt fyrir inntak laganna samþykktu kennarar að koma til starfa á morgun, en skv. skóladagatali er vetrarfrí. Kennsla verður því skv. stundaskrá á morgun.
Ályktun kennara í lok fundar er hér að neðan.
Föstudagsmorguninn 12. nóvember síðastliðinn hafði skólastjóri samband við kennara í Grunnskólanum í Borgarnesi og spurði þá hvort þeir væru til með að kenna mánudaginn 15. nóvember ef kæmi til lagasetningar. Umræddur dagur er frídagur samkvæmt skóladagatali.
Þrátt fyrir að kennarar hörmuðu að svo væri komið að grípa ætti inn í kjaradeiluna með lagasetningu tóku þeir þessari málaleitan vel enda áhugasamir um að skólahald komist sem fyrst í eðlilegt horf. Engan grunaði að lagasetningin gæti orðið með slíkum ósköpum sem raun ber vitni. Þrátt fyrir megna óánægju með innihald laganna hafa kennarar Grunnskólans í Borgarnesi þó ákveðið að koma til vinnu umræddan dag en senda frá sér svohljóðandi ályktun:
Fundur kennara við Grunnskólann í Borgarnesi, haldinn í Félagsbæ sunnudaginn 14. nóvember samþykkir eftirfarandi ályktun:
Kennarar Grunnskólans í Borgarnesi mótmæla lögum um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum sem samþykkt voru á Alþingi laugardaginn 13.nóvember 2004 og þeim þvingunaraðgerðum sem ríkisvaldið beitir kennara í landinu. Kennarar hafa verið samningslausir í hartnær átta mánuði og eru orðnir langþreyttir á þeirri óvissu sem ríkt hefur um kjör þeirra og vinnutilhögun. Með lagasetningu þessari eru kennarar þvingaðir til starfa án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir bættum kjörum og gætu þurft að búa við óbreytt kjör langt fram eftir vetri. Samningar kennara hafa verið lausir frá 31. mars 2004 og er það engan veginn ásættanlegt að hægt sé að skikka kennarastéttina til að þiggja laun samkvæmt fyrri kjarasamningi mánuðum saman. Að auki eru kennarar afar ósáttir við þær þröngu skorður sem gerðardómi eru settar því á milli línanna í nýsettum lögum má lesa að ekki verði um neinar raunhæfar kjaraleiðréttingu að ræða.
Í ljósi þeirra atriða sem að framan eru greind hafa kennarar Grunnskólans í Borgarnesi ákveðið að hafna allri málaleitan varðandi aukið vinnuframlag. Kennarar munu ekki taka að sér nein aukastörf umfram mánudaginn 15. nóvember meðan kjör þeirra eru óráðin og hafna allri samvinnu við sveitarfélagið Borgarbyggð umfram það sem felst í þeirra ráðningarsamningi á meðan refsivöndur ríkisvaldsins og launanefndar sveitarfélaganna vofir yfir.
Í framhaldi af ofangreindu skora kennarar Grunnskólans í Borgarnesi á grunnskólakennara að hugleiða alvarlega með hvaða hætti þeir taki þátt í samstarfi við sveitafélögin um að bæta nemendum upp þann tíma sem forgörðum hefur farið í verkfallinu.