Skemmtileg sýning

Ritstjórn Fréttir

Föstudaginn 1. nóvember var öllum nemendum Grunnskólans boðið að bregða sér út í Óðal að sjá Einar Mikael töframann, sem bauð upp á stuttar sýningar á töfrabrögðum. Voru þetta þrjár sýningar, á fyrstu sýningunni voru 7.-10. bekkur, annarri sýningunni voru 4.-6. bekkur og á þriðju og síðustu sýningunni voru 1.-3. bekkur. Um var að ræða kærkomið uppbrot á deginum og mátti sjá gleðina skína úr andlitum krakkanna á meðan þau fylgdust með því sem fram fór á sviðinu. Þess má geta að myndatökumaður frá Stöð2 var á staðnum og tók upp allar sýningarnar, en Einar Mikael skrifaði nýlega undir samning við þá um sýningu á efni hans. Svo hver veit nema krakkarnir okkar eigi eftir að birtast á sjónvarpsskjánum?