100 ár frá vígslu „gamla“ skólans í Borgarnesi

Ritstjórn Fréttir

Árið 1907 voru fræðslulög sett á Íslandi og tóku þau gildi ári seinna. Samkvæmt þeim var öllum 10 árum börnum skylt að sækja skóla í fjögur ár og áttu þau að vera orðin nokkurn veginn læs og skrifandi þegar þau hófu skólagönguna. Í kjölfar fræðslulaganna var fyrsta fræðslunefndin í Borgarhreppi skipuð 1908 og réði hún Magnús Ágúst Jónsson sem kennara í hreppinn. Það varð að samkomulagi að kennt var á tveimur stöðum þetta fyrsta skólaár, á Ölvaldsstöðum og í nýbyggðu Góðtemplarahúsi (Mæju húsi) í Borgarnesi, sinn daginn á hvorum stað.
Næsta skólaár varð Borgarnes að meðtöldum býlunum í Borgarnesi ofan við Skallagrímsdal sér skólahérað og hófst kennsla í hinu nýja skólahéraði þá um haustið. Kennt var í Mæju húsi fram til 1913 að ráðist var í að byggja skóla. Hann var 126 fermetrar að stærð (9 m x14 m) með tveimur kennslustofum. Skólahúsnæðið var vígt með hátíðarsamkomu laugardaginn 8. nóvember 1913. Guðmundur Guðmundsson „skólaskáld“ og Valdimar Briem voru fengnir til að semja skólavígsluljóð sem voru gefin út í viðhafnarútgáfu og sungin á samkomunni í tilefni dagsins.
Haustið 1913 voru 27 nemendur í skólanum og var nokkuð rúmt um þá. Nemendum í skólanum fjölgað jafnt og þétt sem skýrist af fjölgun íbúa og lengdri skólaskyldu. Um miðjan fjórða áratuginn var byggt við skólann samkomuhús og var það nýtt að hluta til kennslu. Þegar leið á fimmta áratuginn þótti sýnt að skólahúsnæðið væri sprungið og farið var að huga að byggingu nýs skóla. Kennt var í „gamla“ skólanum þangað til að nýr skóli var vígður í maí 1949, þá um haustið voru nemendur orðnir 113.
Gamli skólinn þjónaði margvíslegu hlutverki og var mikil ásókn í að nota hann til funda, samkomna og námskeiðahalds. Má þar nefna að flest félög þorpsins funduðu í skólanum, fyrirlestrar voru haldnir, söngskemmtanir fóru þar fram, danssamkomur haldnar og alþingismenn héldu leiðarþing. Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar var sunginn aftansöngur í skólanum hvert aðfangadagskvöld og um föstuna var skólinn lánaður, tvisvar í viku til helgihalds. Einu af fyrstu útvarpstækjum sem keypt var í Borgarnesi var komið fyrir í skólanum. Þar kom fólk saman og hlustaði á útvarp á síðkvöldum og sunnudögum gegn vægju gjaldi. Að hlustun lokinni var rætt um það sem markverðast þótti. Ásóknin að nýta húsnæðið var slík um tíma að það kom fyrir að fella þurfti niður kennslu af þeim sökum.
Af þessari upptalningu má ljóst vera að „gamli“ skólinn þjónaði víðtæku hlutverki í samfélaginu og í raun var hann var mennta- og menningarhús. Í dag er gamli skólinn vesturendi félagsmiðstöðvarinnar Óðals og þjónar fyrst og fremst yngri kynslóð íbúa Borgarbyggðar sem þeirra menningarhús.