Fulltrúar Grunnskólans í Stíll 2013

Ritstjórn Fréttir

Í haust var boðið upp á val í 9. og 10. bekk í Grunnskólanum, sem hét Stíll og var í umsjón Evu Láru Vilhjálmsdóttur kennara í textílmennt við skólann. Um var að ræða undirbúning fyrir þátttöku í Stíll 2013, sem er hönnunarkeppni á vegum félagsmiðstöðva. Var þetta í 13. skipti sem keppnin fer fram og að þessu sinni var hún haldin í Hörpunni 23. nóvember sl.
Þátttakendum í valinu var skipt í lið og þurfti hvert lið að útfæra eigin hugmynd, en þema keppninnar var fortíðin. Ferlið frá hugmynd til fullbúins módels var skráð í möppu, en hugsa þurfti fyrir öllu sem var auk búninga, hárgreiðsla og förðun. Eins þurfti að gæta þess að halda kostnaði í lágmarki. Síðan var haldin forkeppni í Óðali, þar sem fjögur lið tóku þátt. Vinningsliðið var skipað Alexandreu Rán og Kristínu Ligu í 9. bekk og Önnu Margréti í 10. bekk og kölluðu þær liðið sitt „Eva í Eden“ en nafnið ber með sér hvert hugmyndin var sótt. Meðal þess sem notað var í búninginn var trjábörkur og laufblöð. Þær tóku svo þátt í keppninni í Hörpu fyrir hönd Borgnesinga og stóðu sig með prýði.