Nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi gengu fylktu liði með kerti í fagurmáluðum krukkum frá grunnskólanum í Skallagrímsgarð í morgun ásamt nokkrum foreldrum. Í göngunni gengu vinabekkir hlið við hlið en vinabekkir eru hluti af forvarnarverkefni innan skólans gegn einelti. Snjór lá yfir öllu, fullt tungl var á himni og kyrrð í lofti meðan nemendur og starfsfólk gengu í garðinn þar sem allir sungu nokkur vel valin jólalög. Á meðan söngurinn stóð yfir byrjaði að snjóa, grunnskólabörnum til mikillar gleði. Að söngnum loknum var boðið upp á heitt kakó og piparkökur sem samverugestir nutu vel.