Nýr skólastjóri

Ritstjórn Fréttir

Signý Óskarsdóttir hefur verið ráðinn skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi og kemur til starfa í grunnskólann frá Háskólanum á Bifröst þar sem hún hefur starfað og stundað nám á liðnum árum, nú síðast sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu. Ráðning hennar markar tímamót í sögu grunnskólans þar sem hún verður fyrsta konan til að stýra honum frá upphafi.
Signý hefur réttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari og hefur meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði við kennslu í 6 ár við Grunnskólann á Djúpavogi þar sem hún bar einnig ábyrgð á tölvuveri og bókasafni í nokkur ár. Hún gegndi tímabundið starfi sveitarstjóra Djúpavogshrepps og stöðu framkvæmdastjóra heilsugæslunnar á Djúpavogi og Breiðdalsvík auk þess sem hún hefur síðustu ár sinnt krefjandi störfum á Bifröst. Meðal verkefna þar má telja umsjón með fjarnámi, gæðastjórnun, kennsluráðgjöf og nú síðast framkvæmdastjórn á háskólaskrifstofu.
Signý situr í tveimur hópum sérfræðinga sem tilnefndir eru af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hafa það hlutverk, í stuttu máli, að innleiða, miðla og efla verklag í kringum mat á gæðum náms og kennslu á háskólastigi.
Signý mun taka við starfi skólastjóra um áramót en er nú þegar farin að setja sig inn í dagleg störf og hefur mætt á fundi með stjórnendum og starfsfólki skólans.
Starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi þakkar Kristjáni Gíslasyni fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans undanfarin 15 ár um leið og honum er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi. Einnig fær Hilmar Már Arason þakkir fyrir vel unnin störf í afleysingu skólastjóra það sem af er skólaárinu.