Skíðaferðalag 29 – 30.janúar 2014

Ritstjórn Fréttir

Krakkarnir í 8.bekk, ásamt umsjónakennurum, fóru í skemmtilegt skíðaferðalag norður á Sauðárkrók, miðvikudaginn 29.janúar, gistu eina nótt og komu heim um kvöldmat á fimmtudag.
Þessi ferð tókst í alla staði vel og voru nemendur okkar sjálfum sér og sínum til mikils sóma.
Móttökurnar fyrir norðan voru frábærar, allir vildu allt fyrir okkur gera.
Við lögðum af stað um kl. 8.30 á miðvikudagsmorgun, stoppuðum stutt í Staðarskála og héldum sem leið lág norður á Sauðárkrók og fórum beint á skíðasvæðið í Tindastól. Allir fengu skíðaútbúnað við hæfi og haldið var í brekkuna. Það verður að segja eins og er þá var kunnátta ekki mikil í upphafi en ótrúlegt hvað allir voru fljótir að ná tækninni og voru farnir að renna sér eins og enginn væri morgundagurinn. Fyrir utan skíði var líka hægt að renna sér á snjóþotum og slöngum.
Um kl. 17 fórum við á Sauðárkrók og í Árskóla þar sem við gistum í glænýrri skólastofu 8.bekkjar. Sumir fóru svo í sund meðan aðrir tóku því rólega í skólanum. Klukkan 19 hittust svo allir á veitingastaðnum Ólafshús þar sem beið okkar pizzahlaðborð, franskar og gos í eins miklu magni og hver og einn vildi.
Eftir kvöldmatinn löbbuðum við í félagsmiðstöðina Hús frítímans þar sem við hittum 8.bekk í Árskóla og umsjónarkennara þeirra. Vorum þar í góðum félagsskap til klukkan 22, þá löbbuðum við til baka í skólann, sumir með viðkomu í sjoppunni.
Var svo spjallað fram á nótt þangað til allir sofnuðu þreyttir og sælir eftir frábæran dag.
Á fimmtudagsmorgun var ræs klukkan 8, pakkað niður og síðan fengum við girnilega morgunmat í mötuneytinu og krakkarnir í Árskóla kvaddir.
Þegar við ætluðum svo af stað í nýju rútunni hans Sigga Steina Gulla þá bilaði hún þannig að Siggi hringdi í bílstjóra á Króknum sem keyrði okkur uppí fjall, en sem betur fer þá var þessi bilun ekki alvarleg og Siggi var kominn uppí fjall klukkutíma á eftir okkur.
Allir skemmtu sér hið best í fjallinu fram til klukkan 15.30 og þá keyrðum við af stað heim með viðkomu í Staðarskála þar sem biðu okkar rjúkandi hamborgarar og samlokur. Eftir hressinguna keyrðum við heim og komum í Borgarnes um kl. 19.
Frábærri skíðaferð lokið og allir eiga góðar minningar.
Á föstudag var svo skóli klukkan 8.10 og mættu nemendur frekar þreyttir en áttum við kósýdag saman.
Inga Margrét og Kristín María
Umsj.kennarar 8.bekk