Hvað er PALS?

Ritstjórn Fréttir

Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á lestur í skólanum. Byrendalæsi var innleitt í fyrsta og öðrum bekk og yndislestur í öllum bekkjum. Síðustu ár hafa kennarar kynnt sér hinar ýmsu kennsluaðferðir sem henta vel til að efla lestrarhæfni nemenda, s.s. Orð af orði (eða Orðaforði), leshringi og gagnvirkan lestur.
Í haust var síðan innleitt lestrarkennsluaðferð sem er kölluð PALS (Peer assistand learning strategies) í öðrum til sjötta bekk, þessi aðferð hefur hlotið nafnið Pör að læra saman á íslensku. Þessi kennsluaðferð er vel rannsökuð og hefur hún þótt árangursrík til að þjálfa lesfimi og lesskilning í blönduðum bekkjum.
PALS er aðferð þar sem nemendur þjálfa hvern annan á jafningjagrundvelli og er viðbót við hefðbundna lestrarkennslu að því leyti að nemendur vinna í pörum með mismunandi hlutverk. Lestur og tungumálið lærist þannig í gegnum virk og markviss samskipti barna. Þessi aðferð hentar vel í að læra að þekkja hljóð stafanna, æfa lestur og lesskilning.
Það sem einkennir PALS er að börnin leiðbeina hvert öðru í gegnum hlutverk ,,kennara“ og ,,nemanda“ ásamt þeirri félagsþjálfun sem felst í að skiptast á, bera virðingu fyrir og leiðbeina öðrum. Einnig fá þau þjálfun í öguðum vinnubrögðum, umburðarlyndi, víðsýni ásamt því að efla samskiptafærni sína.
Það er reynsla okkar að nemendur hafa aukið lestrarfærni sína eftir að hafa fengið kennslu í notkun þessarar aðferðar. Lestrarhæfni nemenda eflist, nemendur gera færri mistök, lesskilningur styrkist og leshraði eykst.