Ungmennaráð SAFT

Ritstjórn Fréttir

Grein eftir Klöru Kristinsdóttur, nemenda í tíunda bekk
Ég er í ungmennaráði SAFT og hef verið í því síðan árið 2011. Ungmennaráðið samanstendur af krökkum allstaðar af landinu á aldrinum 12-18 ára.
Við í ungmennaráðinu aðstoðum við ýmislegt, til dæmis við að hanna heimasíðuna SAFT og gera hana aðgengilega fyrir alla þá sem hana vilja lesa. Við komum með hugmyndir um hvernig eigi að kenna ánægjulega og örugga netnotkun með því að fara í skóla landsins og halda jafningjafræðslu fyrir krakka á aldrinum 11-16 ára.
Núna erum við að vinna að verkefninu „Ekkert Hatur“. Ekkert Hatur eða No Hate Speech Movement er Evrópskt verkefni sem var sett á stað föstudaginn 11. október 2013 og er gegn hatursorðræðu á Íslandi. Fyrir hönd Mennta- og menningamálaráðuneytisins voru eftirfarandi samtökum úthlutað verkefnið á Íslandi: SAFT, Heimili og skóli – Landssamtök foreldra, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn, í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Verkefnið stendur fyrir jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Því er beint gegn hatursáróðri, kynþáttafordómum og mismunun á netinu. Markmiðin eru m.a. að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu meðal ungs fólks. Kynna fyrir þeim mikilvægi miðlalæsis, styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka vitund gegn hatursáróðri á netinu.
Þann 11. febrúar síðastliðinn stóðu SAFT, Mennta- og menningamálaráðuneytið, Innanríkisráðuneytið, Velferðaráðuneytið, Póst og fjarskiptastofnun og Menntavísindasvið HÍ fyrir ráðstefnu um Internetið á alþjóðlega netöryggisdeginum. Á þeirri ráðstefnu var „Ekkert hatur“ verkefnið meðalannars kynnt fyrir þáttakendum og síðan tók ég þátt í málstofunni „Ábyrgð og vernd íslendinga á netinu.“ Þar var meðal annars verið að ræða hvernig við tryggjum öryggi fólks á netinu og hvetjum til ábyrgrar nýrrar tækni. Hvert hlutverk skóla, samfélags og foreldra sé og hvaða reglur gilda um Internetið. Hinar málstofurnar voru „Varðveisla Persónuupplýsinga“ og „Hvernig byggjum við stafræna borgaravitund?“.