Undankeppni fyrir Stóru upplestrarkeppnina

Ritstjórn Fréttir

Í kvöld fór fram undankeppni fyrir stóru upplestrarkeppnina. Markmið hennar er að vekja áhuga nemenda á vönduðum upplestri og lestri almennt. Lesin voru textabrot úr Benjamín Dúfa eftir Friðrik Erlingsson og ljóð að eigin vali. Óhætt er að segja að mikil fjölbreytni hafi verið í ljóðavali og mátti heyra ljóð eftir höfunda allt frá Davíð Stefánssyni til Davíðs Þórs Jónssonar.
Í dómnefnd voru Margrét Jóhannsdóttir, Björg Kristófersdóttir og Sævar Ingi Jónsson. Var starf þeirra ekki auðvelt, því margir keppendanna sýndu mikla hæfileika og var úr vöndu að ráða við val í efstu sætin. Á meðan dómnefndin var að störfum var keppendum og áhorfendum boðið upp á kaffi og með því í boði foreldra. Dómnefndinni tókst að ljúka störfum og raða í fjögur efstu sætin, en þrír efstu verða fulltrúar Grunnskólans í Borgarnesi í Vesturlandskeppninni og fjórða sætið varamaður. Úrslit urðu sem hér segir:
1. sæti Íris Líf Stefánsdóttir
2. sæti Jóhanna Lilja Gautadóttir
3. sæti Hugrún Björk Bernhardsdóttir
4. sæti Gunnar Örn Ómarsson
Óskum við þeim til hamingju með árangurinn. Þó fyrrnefndir fjórir krakkar hafi verið valin til áframhaldandi þátttöku, voru allir sigurvegarar, því það er ekki lítið afrek að koma fram og lesa fyrir fullan sal af fólki. Til hamingju krakkar þið stóðuð ykkur vel og voruð skólanum og foreldrum ykkar til sóma.