Árshátíð skólans

Ritstjórn Fréttir

Árshátíð skólans var haldin í gær og er það almennt mat fólks að þetta hafi verið besta árshátíð skólans, frá því hún var tekin upp með breyttu sniði. Kemur þar margt til, m.a. gott skipulag, góður undirbúningur, breytt fyrirkomulag á mið- og unglingastigi, aukin færni nemenda að koma fram og það að allir í skólasamfélaginu lögðust á eitt að gera hana vel úr garði.
Markmiðið með árshátíðinni er að gefa nemendum tækifæri á að koma fram og þjálfa framsögn, söng, dans og leik. Í huga okkar sem störfum við skólann er gildi slíkrar samkomu mikið. Samhugur í skólanum eykst. Sjálfstraust nemenda eflist við hvern leiksigur, framsögn þeirra batnar og leikræn tjáning eflist.