Í næstu viku munum við fá góða gesti frá mörgum heimshornum í skólann. Vikuna köllum við Veraldarviku eða Viku fjölbreytileikans.
Tilgangurinn með Veraldarvikunni er að víkka okkar eigin sjóndeildarhring og vinna gegn fordómum. Við fáum að kynnast annarri menningu og kynna okkar eigin. Við eignumst nýja vini og mótum nýjar hugmyndir.
Gestirnir okkar koma frá AUS- Alþjóðlegum ungmennaskiptum og eru á aldrinum 20 – 28 ára frá sex löndum. Gestirnir fá tækifæri til þess að heimsækja íslenskan grunnskóla og kynnast fjölskyldulífi í Borgarbyggð. Við í grunnskólanum fáum tækifæri til þess að fræðast um ólík lönd og menningu frá fyrstu hendi. En við fáum líka að kynna okkar menningu og nánasta umhverfi, læra nýja leiki og kannski skrifa nafnið okkar á nepölsku.
Nokkrar fjölskyldur nemenda í 10. bekk hafa boðist til að opna heimili sín fyrir gestunum í næstu viku. Við erum mjög þakklát fyrir það samstarf og erum viss um að það á eftir að ganga vel.
