Lestrarátakið er tilraun til þess að kveikja áhuga barna í 1. – 7. bekk í grunnskólum landsins á lestri og stendur frá 1. október 2014 – 1. febrúar 2015. Átakið er hugarfóstur Ævars Þórs Benediktssonar leikara og dagskrárgerðarmanns. Þátttakendur lesa og kvitta fyrir hverja bók á sérstakan miða. Þegar barnið hefur lesið þrjár bækur er miðinn gildur og þá má skila honum í sérstakan kassa á bókasafninu og fá í leiðinni nýjan miða. Leyfilegt er að lesa hvernig bækur sem er; alfræðibækur, teiknimyndasögur, ævintýrabækur, lestrarbækur úr skólanum o.s.frv.
Í febrúar 2015 dregur Ævar út fimm nöfn úr öllum innsendum miðum og fá vinningshafarnir afar óvenjuleg verðlaun. Verðlaunahafarnir verða gerðir að persónum í nýrri ævintýrabók sem kemur út næsta vor. Bókin mun heita Bernskubrek Ævars vísindamanns: Risaeðlur í Reykjavík.
Á myndinni má sjá þá Víking Snorra og Fabian, nemendur í 5. bekk, setja fyrstu lestrarmiðana sína í kassann á bókasafninu.