Nýr skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi

Ritstjórn Fréttir

Í morgun á fundi byggðaráðs Borgarbyggðar var samþykkt að nýr skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi verði Júlía Guðjónsdóttir.
Júlía útskrifaðist með BEd gráðu frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2002 og hóf störf þá um haustið í Rimaskóla þar sem hún kenndi í sex ár. Skólaárið 2007 -2008 kenndi hún í Lækjarskóla en haustið 2008 tók hún við skólastjórastöðu við Reykhólaskóla í Barðarstrandasýslu og gegndi þeirri stöðu í fjögur ár.
Árið 2012 fluttist Júlía til Reykjavíkur og fór í fæðingarorlof. Frá áramótum hefur Júlía kennt við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Júlía er um það bil að ljúka mastersritgerð sinni í stjórnun og stefnumótun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerð hennar fjallar um hvernig stjórnunarhættir og hugarfar stjórnenda hafa áhrif á velgengni fyrirtækja.