Sprotaverkefnið IÐN

Ritstjórn Fréttir

Grunnskólinn í Borgarnesi hefur hlotið styrk úr Sprotasjóði til þess að koma á samstarfi við fyrirtæki í bænum í því skyni að nemendur kynnist iðngreinum sem þar eru stundaðar. Markmið þessa er meðal annars að efla áhuga nemenda á iðngreinum og auka þátt þeirra í samfélaginu. Boðið verður upp á IÐN í vali hjá 9. og 10. bekk í vetur.
Valinu verður skipt í 5 lotur sem hver um sig er 8 – 9 vikur. Hver nemandi er heila lotu í sama fyrirtæki, 2 klukkustundir á viku, en getur svo valið annað fyrirtæki í næstu lotu. Gerður verður samningur milli nemanda, foreldra, fyrirtækis og skóla um ábyrgð á nemanda.
Starfsmenn viðkomandi fyrirtækja sjá um að kynna nemendum starfsemi þeirra í samvinnu við skólann. Þeir fylla jafnframt út sérstakt matsblað fyrir hvern nemanda og fylgjast með mætingu.
Umsjón með verkefninu hefur Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, hönnunar- og smíðakennari.