Miðstigsleikar

Ritstjórn Fréttir

Miðstigsleikarnir, íþróttamót nemenda á miðstigi í grunnskólum Vesturlands, fóru fram í blíðskaparveðri þriðjudaginn 1. september síðastliðinn. Skólarnir sem tóku þátt í leikunum eru auk Grunnskóla Borgarness, Grunnskóli Borgarfjarðar, Auðarskóli í Búðardal, Grunnskólinn á Reykhólum og Heiðarskóli.
Keppt var í frjálsum íþróttum, 60 og 600 metra hlaupi, langstökki og kúluvarpi. Auk þess var keppt í knattspyrnu sem er ný keppnisgrein á leikunum.
Aðalskipuleggjendur leikanna voru þau Íris Grönfeldt sem sá um keppni í frjálsum íþróttum og Guðjón Guðmundsson sem skipulagði knattspyrnuna. Fjöldi kennara og annars starfsfólks skólanna kom einnig að undirbúningnum.
Eins og áður greinir lék veðrið við þátttakendur og snæddu þeir nestið sitt í áhorfendabrekkunni milli keppnisgreina. Að sögn skipuleggjenda leikanna heppnuðust þeir afar vel.