Skólinn tekur þátt í Erasmus verkefni

Ritstjórn Fréttir

Grunnskólinn í Borgarnesi er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu Water around us (WAU) sem hófst sl. haust og er verkefni til þriggja ára. Verkefnið er hluti af Evrópsku menntaáætluninni. Þátttakendur í koma frá 7 skólum víðsvegar í Evrópu, Spáni, Portúgal, Þýskalandi, Finnlandi og Lettlandi auk Íslands.
Fyrsti fundurinn var haldinn hér Borgarnesi í nóvember á síðasta ári þar sem tveir kennarar frá hverjum skóla hittust og fyrsta árið var skipulagt. Fyrsta verkefnið var samkeppni um „logo“ verkefnisins. Auk þess að funda í skólanum voru helstu perlur Suð-Vesturlands skoðaðar, Bláa lónið, Deildartunguhver, Grábrók, Hraunfossar, Stefánshellir, Langjökull, Ölkelda, Vatnasafnið í Stykkishólmi, Krosslaug svo og auðvitað gullni hringurinn.
Í febrúar á þessu ári var fundur í bænum Lappeenranta í Finnlandi þar sem tveir kennarar og þrír nemendur frá hverjum skóla hittust.
Nemendur gistu á finnskum heimilum. Hver nemendahópur sá um kynningu á sínu landi. Mjög vel var tekið á móti hópnum af bæjarfélaginu og var honum m.a boðið í stóra líkamsræktarstöð með öllum gerðum af gufuböðum auk sundlauga og potta. Hópurinn heimsótti líka hafnarbæinn Kotka við Eystrasaltið og tók þátt í ýmsum vatns- og ísverkefnum í skólanum.
Í mars lá svo leiðin til Ruijena í Lettlandi, tveir kennarar og þrír nemendur fóru í þá ferð og gistu nemendur á lettneskum heimilum. Fyrir ferðina höfðu nemendur undirbúið tilraun þar sem vatn er notað. Tilraunin snerist um að breyta vatni í rafmagn. Í Lettlandi tók hópurinn líka þátt í hátíðarhöldum á sérstökum vatnsdegi sem haldinn er hátíðlegur þar árlega.
Síðasti fundur skólaársins var kennarafundur í Jerez de la Frontera á Spáni, þar sem kennarar hittust til að skipuleggja framhald samstarfsins og fyrsti fundur þessa skólaárs verður í Þýskalandi í október næstkomandi.
Verkefninu verður þannig hagað í vetur að nemendur 9. og 10. bekkja geta valið að taka þátt í því. Einu sinni í viku mun hópurinn hittast og vinna í sambandi við verkefnið. Nemendaferðir á þessu skólaári verða til Portúgal í janúar og til Spánar í mars og munu þrír nemendur úr valhópnum fara í hvora ferð. Lokafundur skólaársins verður síðan í Finnlandi (kennarafundur).
Vinnan við verkefnið felst m.a. í að skýra út (á ensku) ýmis orð og hugtök sem tengjast vatni, samanburði á námsskrám þátttökulandanna þar sem skoðað er hvernig og hvar fjallað er um vatn. Í gangi er ljósmyndasamkeppni, vatn mismunandi árstíða, og verða myndir valdar til að prýða dagatal fyrir árið 2016. Verkefni næstu ára eru margs konar, s.s. að búa til app um hringrás vatnsins, vinna bæklinga um hugtök sem tengjast vatni og um vatn í nærumhverfinu, myndbandsvinna o.fl.
Helga Stefanía Magnússtjóri er verkefnisstjóri af hálfu Grunnskólans í Borgarnesi. Hún segir það mjög dýrmætt fyrir skólann að fá tækifæri til að taka þátt í verkefni sem þessu. Verkefnið er þverfaglegt og auk þess að þjálfa nemendur í enskri tungu er mikið fjallað um náttúru og jarðfræði, upplýsingatækni er mikið notuð sem og listsköpun. Það er líka mikil lífsreynsla fyrir unglinga að fá að hitta jafnaldra sína í öðrum löndum og taka þar þátt í skólastarfi.