Bókasafnsdagurinn/Dagur læsis

Ritstjórn Fréttir

UNESCO Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur frá árinu 1965 tileinkað 8. september málefnum læsis. Sama dag stóðu bókasöfnin í landinu fyrir svokölluðum bókasafnsdegi í fimmta sinn. Tilgangur bókasafnsdagsins er einkum að vekja athygli á mikilvægi bókasafna og upplýsingamiðstöðva og var bryddað upp á ýmsu skemmtilegu á söfnunum í tilefni dagsins.
Á bókasafni grunnskólans var haldinn eins konar skiptibókamarkaður, þar sem allir sem vildu, nemendur og starfsfólk, gátu komið með gamla bók og valið sér aðra í staðinn.
Nemendur fengu bókamerki dagsins á safninu og kallað var eftir ábendingum frá þeim varðandi bækur og bókakaup. Bókum Guðrúnar Helgadóttur var stillt upp sérstaklega en hún var kosin vinsælasti kvenrithöfundur landsins í tilefni dagsins. Bókasafnið þakkar kærlega fyrir allar heimsóknirnar sem og margar góðar og fallegar bækur sem það fékk að gjöf á bókasafnsdeginum.