Skólaferðalag 10.bekkjar

Ritstjórn Fréttir

Miðvikudaginn 23.september, að loknu síðasta samræmda prófinu, hélt 10.bekkur af stað í skólaferðalag norður í land.
Fyrsti viðkomustaður var Sauðárkrókur þar sem ferðalangarnir spreyttu sig á skotfimi hjá Skotfélaginu Ósmönnum á Sauðárkróki. Að því loknu fór hópurinn að Bakkaflöt þar sem gist var. Um kvöldið var farið í litbolta á Bakkaflöt og var mikið fjör.
Fimmtudaginn 24. september var haldið norður á Akureyri og farið á skauta, í mat á Greifanum, í keilu og endað á ljúffengum Brynjuís. Þá var stefnan tekin á Siglufjörð og Síldarminjasafnið skoðað. Að því loknu var keyrt á Hofsós þar sem farið var í sund og snæddur kvöldmatur á veitingastaðnum Sólvík. Á leiðinni til baka var komið við á fótboltavellinum í Varmahlíð og spilaður blöðrubolti. Þegar komið var að Bakkaflöt um kvöldið var frjáls tími.
Á föstudeginum náði ferðin hápunkti sínum að mati flestra en þá var farið í flúðasiglingu í sól og blíðu. Siglt var um Vestari Jökulsá þar sem stórbrotin gljúfur blasa við og þeir sem vildu fengu einnig að hoppa fram af klettum út í ána. Allir komu sælir og glaðir aftur á Bakkaflöt en blautir og kaldir og því var mjög kærkomið að fara aðeins í pottana áður en snædd var dýrindis súpa og heimabakað brauð. Upp úr kl. 14 var lagt af stað heim eftir að starfsfólk Bakkaflatar hafði verið kvatt með þökkum fyrir frábærar móttökur og góðan aðbúnað. Það voru þreyttir en ánægðir 10.bekkingar og kennarar sem bílstjórinn Siggi Steina Gulla skilaði heim í Borgarnes um kl. 17.30. Að sögn þeirra Ingu Margrétar Skúladóttur og Kristínar Margrétar Valgarðsdóttur umsjónarkennara tókst ferðin í alla staði vel og voru nemendur skóla sínum til mikillar fyrirmyndar.