Skólabúðir á Laugum

Ritstjórn Fréttir

Dagana 19.-23.október dvaldi 9. bekkur við leik og störf að Laugum í Sælingsdal. Frá Grunnskólanum í Borgarnesi voru 36 nemendur, en það var rúmur helmingur hópsins sem var á Laugum umrædda viku.
Á meðan á dvölinni stóð sóttu krakkarnir tíma í þremur hópum sem kepptu svo hver við annan á Laugaleikunum á fimmtudagskvöldið. Dagskráin sem hóparnir sóttu hafði að markmiði að efla félagsfærni og styrkja sjálfsmynd nemenda og hjálpa þeim að reyna á styrkleika sína. Nemendur tóku m.a. þátt í traustgöngu þar sem hver og einn var leiddur áfram blindandi af félaga sínum, þeir spreyttu sig í ræðumennsku, fóru í gegnum þrautabraut og margt fleira.
Kristín Frímannsdóttir og Helga Stefanía Magnúsdóttir fylgdu sínum nemendum úr Borgarnesi. Að sögn þeirra var ánægjulegt að sjá hve tilbúnir krakkarnir mættu til leiks og tókust af jákvæðni á við hvert verkefni sem fyrir þá var lagt. Margir unnu stóra sigra á sjáfum sér og fundu að þeir gátu meira en þeir héldu. Hópurinn sem heild var sjálfum sér, skólanum sínum og foreldrum til mikils sóma.