Vetrarfrí nemenda – skipulagsdagar kennara

Ritstjórn Fréttir

Dagana 19. og 20. nóvember fengu nemendur frí í skólanum á meðan á skipulagsdögum kennara stóð. Fyrri dagurinn var notaður í þágu uppbyggingarstefnunnar sem höfð er að leiðarljósi í skólastarfinu hér og nutu kennarar og starfsmenn leiðsagnar Fanneyjar D. Halldórsdóttur skólastjóra og Elínar Yngvadóttur aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann í Sandgerði.
Uppbyggingarstefnan felur í sér að unnið er með lífsgildi sem eiga sér stoð í ákveðnum þörfum sem allir hafa, þörfum sem við reynum að mæta hvert og eitt með þeim aðferðum sem við best kunnum.Til að vera lífsglaður og hamingjusamur þarf einstaklingurinn að uppfylla meðfæddar þarfir fyrir að tilheyra og fyrir áhrifavald, frelsi, gleði og öryggi.Uppbyggingarstefnan – uppeldi til ábyrgðar og uppbygging sjálfsaga er eins og nafnið bendir til aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga og að finna réttar leiðir í samskiptum.
Síðari starfsdagurinn hófst með því að Halldóra R. Björnsdóttir umsjónarkennari 4. bekkjar fjallaði um og kenndi leiki sem nýta má á marga vegu í kennslustofunni. Halldóra, sem er líka menntuð leikkona, hefur mikla reynslu af notkun leikja bæði í kennslu og leikhússtarfi. Dagurinn var síðar nýttur til ýmiss konar skipulags skólastarfsins sem framundan er.
Á myndinni má sjá starfsmenn bregða á leik undir stjórn Halldóru.