Skólapúlsinn í Grunnskólanum í Borgarnesi 2015

Ritstjórn Fréttir

Skólapúlsinn er vefkerfi sem veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er mánaðarlega um þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Á vef Skólapúlsins má finna upplýsingar um aðferðafræðilegar aðferðir vefkerfisins. Tæplega 70 skólar á landinu taka þátt í könnun Skólapúlsins sem er lögð fyrir úrtak nemenda, foreldra og fyrir alla starfsmenn.
Í Grunnskólanum í Borgarnesi verða lagðar fyrir þrjár nemendakannanir veturinn 2015-2016.
Fyrsta könnunin var lögð fyrir í lok september og var svarhlutfallið 97,9%. Næsta könnun verður lögð fyrir í janúar 2016 og sú þriðja í maí 2016.
Spurningarnar í þessari nemendakönnun skiptust í nokkra flokka og var spurt um virkni nemenda í skólanum, líðan og heilsu og loks skóla- og bekkjaranda.
Í svarflokknum „Líðan og heilsa“ komu nemendur í Grunnskólanum í Borgarnesi einstaklega vel út og eru þeir yfir landsmeðaltali í öllum spurningunum. Spurningarnar sem eru undir þessum flokki lúta t.d. að sjálfsáliti, stjórn á eigin lífi, vellíðan, hreyfingu og einelti. Fram kemur að einelti er langt undir landsmeðaltali og hefur aldrei mælst jafnlítið og raunin er nú.
Í svarflokknum „Skóla- og bekkjarandi“ er skólinn yfir landsmeðaltali og eru spurningarnar í þessum flokki m.a. um samsömun við nemendahópinn, samband nemenda við kennara, aga í tímum o.fl. Það sem hins vegar betur má fara í skólanum er virkni nemenda í skólanum. Skólinn er þar aðeins undir landsmeðaltali. Undir þessum flokki er ánægja af lestri, þrautseigja í námi, áhugi á tilteknum námsgreinum, trú á eigin vinnubrögðum og námsgetu.
Við innra mat skólans er notast við gæðagreina sem er sjálfsmatsaðferð sem er upprunnin í Skotlandi. Í vetur verður unnið að endurskoðun og uppbyggingu skólanámskrár, námsmenningar, kennsluaðferða og fleira.
Fjallað hefur verið um niðurstöður á starfsmannafundi og verður gert á næsta fundi skólaráðs en þær eru jafnframt birtar árlega í sjálfsmatsskýrslu skólans og ársskýrslu.