Heiðar Lind ræddi hernámsárin við nemendur 9. bekkjar

Ritstjórn Fréttir

Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur kom í heimsókn til 9. bekkjar skólans í dag og fjallaði um hernámsárin í Borgarnesi. Heiðar, sem er reyndar gamall nemandi skólans og innfæddur Borgnesingur, sýndi myndir frá hernámsárunum, lýsti samskiptum heimamanna og hermanna og umsvifum hersins í bænum.
Nemendur hlustuðu af athygli og spurðu margra athyglisverðra spurninga, m.a. um braggabyggðina, áhrif hersetunnar á daglegt líf íbúa í Borgarnesi, áhrif hersins á atvinnulífið og aðstæður í Borgarnesi um miðja 20. öld. Heiðar, sem nú vinnur að ritun 150 ára sögu Borgarness, skrifaði á sínum tíma BA ritgerð um hernámsárin í Borgarnesi og komu nemendur því aldeilis ekki að tómum kofanum hjá honum.