
Bræðurnir Ævar Þór Benediktsson og Guðni Líndal Benediktsson litu við í skólanum í dag og lásu úr nýjustu bókunum sínum. Guðni Líndal fékk fékk fyrir rúmu ári Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Leitin að Blóðey og nú er komið út framhald hennar sem nefnist Leyndardómar erfingjans. Ævar gaf út bókina Þín eigin þjóðsaga fyrir síðustu jól og fylgir henni nú eftir með bók sem nefnist Þín eigin goðsaga.
Bræðurnir lásu upp í 3 – 6 bekkjum skólans við mikinn fögnuð áheyrenda. Í lokin fengu nemendur að bera upp spurningar sem bræðurnir svöruðu greiðlega. Þetta er fjórða heimsókn rithöfunda í skólann á þessu hausti og er óhætt að fullyrða að heimsóknir af þessu tagi stuðli að því að glæða lestraráhugann hjá nemendum.